Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 8. júlí 2002 kl. 21:20

Kristján tryggði Keflvíkingum stigið í nágrannaslagnum

Keflavík og Grindavík gerðu 2-2 jafntefli í 9. umferð Símadeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir frá Grindavík komust tvisvar yfir í leiknum með mörkum frá Grétari Hjartarsyni en Keflvíkingar náðu í bæði skiptin að jafna, fyrst með marki frá Hólmari Rúnarssyni og svo með marki frá Kristjáni Jóhannssyni, rétt áður en dómarinn flautaði af.Grindvíkingar byrjuðu betur og komust yfir á 4. mínútu með marki frá Grétari Hjartarsyni. Á 18. mínútu náðu svo Keflvíkingar að jafna en það gerði Hólmar Örn Rúnarsson með frábæru skoti eftir góðan undirbúning Hauks Inga Guðnasonar. Þannig var staðan í annars tíðindalausum fyrri hálfleik.
Grindvíkingar voru töluvert sterkari aðilinn í seinni hálfleik og á 71. mínútu náði Grétar Hjartarson að bæta við öðru marki sínu og Grindavíkur. Eftir þetta breytti Kjartan Másson leikkerfi Keflvíkinga með því að taka mann úr vörninni og bæta í sóknina og við það hresstist leikur heimamanna og þeir réðu lögum og lofum. Það leit þó út fyrir að Grindvíkingar færu heim með öll stigin því ekki vildi boltinn inn hjá Keflavík. Þegar dómarinn var í þann mund að flauta leikinn af náði Kristján Jóhannsson hins vegar að jafna leikinn með föstu skoti úr teignum og jantefli raunin, eitthvað sem Keflvíkingar geta verið mjög sáttir við.

Haraldur Guðmundsson var að spila vel í liði Keflvíkinga ásamt Zoran Ljubicic í vörninni. Þá átti Kristján Jóhannsson góða innkomu í seinni hálfleik og lét mikið af sér kveða.
Í Grindavíkurliðinu var Grétar Hjartarson að spila ágætlega og Eysteinn Hauksson átti einnig fínan leik. Ólafur Örn Bjarnason átti góðan leik sem fyrr í vörninni.

Keflvíkingar eru með 10 stig í deildinni í 6. sæti þegar mótið er hálfnað og Grindvíkingar eru í 3. - 4. sæti með 12 stig
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024