Kristján rekinn frá Keflavík - leit hafin að nýjum þjálfara
Kristjáni Guðmundssyni hefur verið sagt upp störfum sem þjálfara Pepsi-deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu. Þessi ákvörðun Knattspyrnudeildar Keflavíkur hefur legið í loftinu að undanförnu vegna afar slaks gengis liðsins en Keflvík hefur aðeins fengið eitt stig út úr sjö síðustu leikjum og markatalan er mínus 16 mörk.
Að sögn Þorsteins Magnússonar formanns Knattspyrnudeildar Keflavíkur hefur eftirmaður Kristjáns ekki verið ráðinn en félagið er komið á fullt í að finna hann. Ýmis nöfn hafa flogið á milli manna í Keflavík, m.a. nafn Guðmundar Steinarssonar þjálfara 2. deildarliðs Njarðvíkinga en þeim hefur gengið mjög vel það sem af er sumri. Guðmundur var markahrókur milkill með Keflavík á löngum ferli og hefur fengið nasaþefinn af þjálfun hjá nágrönnunum í Njarðvík en með liðinu leika mjör margir ungir keflvískir leikmenn.
Nöfn fyrrverandi þjálfara Keflavíkur hafa einnig borið á góma, m.a. þeirra Gunnars Oddssonar og Sigurðar Björgvinssonar en þeir þjálfuðu liðið m.a. þegar það hampaði bikarmeistaratitli 1997 og 2004. Þá hafa sumir velt því fyrir sér hvort Guðjón Árni Antóníusson sem kom aftur til liðsins í ár sé álitlegur kostur en hann er í þjálfarateymi liðsins í dag.
Í tilkynningu frá deildinni segir:
Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur ákveðið að Kristján Guðmundsson stígi frá sem aðalþjálfari Keflavíkur. Kristján hefur starfað lengi fyrir Keflavík og hefur lagt mikla vinnu á sig fyrir félagið. Knattspyrnudeildin vill þakka Kristjáni fyrir hans störf með mfl karla undanfarin ár og óskar honum velgengni á komandi árum.
Verður Guðmundur Steinarsson næsti þjálfari Keflavíkur?