Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Kristján hinum megin við borðið
Sunnudagur 18. ágúst 2013 kl. 10:34

Kristján hinum megin við borðið

Rithöfundurinn að sigrum Valsmanna gegn Keflavík

Keflvíkingar mæta Valsmönnum í Pepsi deild karla í fótbolta í kvöld á heimavelli. Ekki hafa strákarnir úr Bítlabænum riðið feitum hesti úr viðureignum sínum gegn Hlíðarendapiltum, en Valsmenn hafa unnið síðustu þrjá leiki gegn Keflvíkingum með markatölunni 12-0!

Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga á ekki von á öðru en að Keflvíkingar skilji fortíðina að baki og horfi fram á við þegar Valsmenn mæta á Nettóvöllinn í kvöld. Hann þjálfaði sjálfur Valsmenn þegar þeir léku Keflvíkinga grátt undanfarin tvö ár og var að eigin sögn rithöfundurinn að því handriti. Nú situr hann hinum megin við borðið en heldur enn á sama pennanum ef svo mætti segja. Hann þekkir vel til Valsliðsins og þykist vita hvernig megi velgja þeim undir uggum. „Leikurinn leggst mjög vel í mig. Við erum á sigurbraut á heimavelli,“ segir þjálfarinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síðasti leikur Keflvíkinga í Pepsi deildinni endaði með 3-0 ósigri gegn Fylki en þar léku Suðurnesjamenn afar illa að mati Kristjáns. „Það gerist stundum að leikmenn leiki svona arfaslakan leik. Þarna voru of margir einstaklingar að eiga slæman dag og því fór sem fór. Úrslitin voru fullkomlega í samræmi við frammistöðu okkar.“

Heimasigur vannst á móti Víkingum Ó á dögunum og Kristján býst við því að Keflvíkingar nálgist Valsleikinn á svipaðan hátt og þeir gerðu þá. Nú eru reynslumiklir menn að koma inn í lið Keflavíkur eftir löng meiðsli og Kristján telur það jákvætt. Hann segir þá Ómar Jóhannsson, Einar Orra Einarsson, Magnús Þorsteinsson og Ray Anthony Jónsson, koma með mikilvæga reynslu og baráttu inn í liðið. „Menn koma vel stemmdir og með skóna reimaða fast í leikinn í kvöld. Við vonust svo eftir stuðningi áhorfenda sem voru frábærir í síðasta leik.“ 

Leikurinn hefst klukkan 19:15 á Nettóvellinum í Keflavík.

Tengd frétt: Keflvíkingar grilla það sem eftir lifir sumars