Kristján fundaði með Wenger
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur hefur dvalið hjá Arsenal í London frá sl. mánudegi. Kristján tók m.a. þátt í undirbúningi leiks Arsenal gegn Sparta Prag í Meistaradeildinni sem Arsenal vann 3-0. Haft er eftir Kristjáni á heimasíðu Keflavíkur að létt hefði verið yfir Arsene Wenger framkvæmdastjóra Arsenal eftir sigurinn og á fundi þeirra á fimmtudaginn hafi hann verið mjög léttur og líflegur. Kristján og Wenger áttu gott spjall saman um leikmenn Arsenal og þjálfunaraðferðir þar á bæ. Þeir kollegar hittast aftur á undirbúningsæfingu á föstudag.
Það er engin spurning að heimsókn Kristjáns til Arsenal bætir töluvert í reynslubankann til viðbótar við ánægjuna og skemmtilegheitin sem hafa verið í herbúðum Arsenal þessa daga sem Kristján hefur dvalið þar.
Mynd frá blaðamannafundi fyrir leik Mainz og Keflavíkur í UEFA bikarnum í sumar