Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kristján á Highbury
Fimmtudagur 27. október 2005 kl. 16:45

Kristján á Highbury

Kristján Guðmundsson, þjálfari knattspyrnuliðs Keflavíkur, er á leið sinni til enska stórliðsins Arsenal. Frá þessu er greint á www.keflavik.is

Mun Kristján dvelja hjá Arsenal í eina viku og fylgjast með æfingum og undirbúningi liðsins fyrir leik í meistaradeildinni og úrvalsdeildinni. Heimsókn Kristjáns hefst á mánudag og mun hann m.a. taka þátt í lokaundirbúningi liðsins fyrir leikinn gegn Sparta Prag í meistaradeildinni.

Kristján mun taka þátt í æfingum liðsins á fimmtudag og föstudag í næstu viku og verður einnig viðstaddur æfingar hjá unglingaliði Arsenal.

„Við komumst í samband við Arsenal þegar Issa Abdulkadir gekk í okkar raðir úr unglingastarfi Arsenal,“ sagði Kristján í samtali við Víkurfréttir í dag. „Forráðamenn Arsenal voru ánægðir með hvernig við unnum með málefni Issa og hvernig honum vegnaði hjá okkur,“ sagði Kristján.

Fyrir þjálfara á Íslandi er þetta draumi líkast en Kristján var spenntur fyrir ferð sinni á Highbury. „Ég verð úti í boði Arsenal og mun fylgjast með öllum æfingum aðalliðsins og nokkrum æfingum unglingaliðsins, einnig mun ég fylgjast vel með því hvernig þeir æfa eftir leiki og hvernig þeir hvíla sig á milli leikja en sá þáttur er gríðarlega mikilvægur,“ sagði Kristján að lokum.

VF-mynd/ Kristján (t.v.) og Rúnar V. Arnarson (t.h.)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024