Kristinn með Njarðvík í sigurleik
Njarðvík tók á móti Þór Akureyri í Domino´s-deild karla í körfu í kvöld og unnu þeir Þórsara með 10 stiga mun, en lokatölur leiksins urðu 84-74. Kristinn Pálsson fékk leikheimild fyrir leikinn í kvöld og skoraði hann 7 stig og tók 4 fráköst.
Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru með yfirhöndina í leiknum, í hálfleik var staðan 29-15. Njarðvík situr í 5. sæti deildarinnar með 20 stig.
Stigahæstu leikmenn Njarðvíkur voru Terrell Vinson með 16 stig, 7 fráköst og 3 varin skot, Maciek Stanislav Baginski með 16 stig og 6 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 12 stig, 10 fráköst og 3 varin skot, Oddur Rúnar Kristjánsson með 11 stig og 7 stoðsendingar og Logi Gunnarsson með 9 stig.