Kristinn fer í græna búninginn
Njarðvíkingar hafa fengið góðan liðsstyrk í Domino's deildinni í körfubolta þegar Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson náði samningi við sitt gamla heimafélag um að leika með liðinu. „Mitt uppeldisfélag var mér alltaf efst í huga þegar ákvörðun var tekin að koma heim. Ákvörðunin var þannig séð í raun auðveld og lítið annað sem kom til greina þó svo að vissulega hafi ég hlustað á tilboð frá öðrum liðum,“ sagði Kristinn í samtali við karfan.is en hann mun leika með liðinu út leiktíðina og næstu tvö tímabil.
Kristinn er uppalinn í Njarðvík en um 15 ára aldur fór hann til unglingaliðs Stella á Ítalíu til náms þar sem hann spilaði með liði þeirra við góðan orðstýr og var meðal annars fyrirliði liðsins. Þaðan fór hann svo til Marist háskólans þar sem hann hefur dvalið við nám síðustu tvö og hálft árið. Kristinn var í æfingahóp A-landsliðsins á síðasta ári og hefur verið viðloðandi þar síðastliðið árið, segir á karfan.is.