Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kristi Smith hetja Keflvíkinga með þrist á lokasekúndum í framlengingu
Föstudagur 19. mars 2010 kl. 21:47

Kristi Smith hetja Keflvíkinga með þrist á lokasekúndum í framlengingu



Keflavíkurstúlkur héldu til Hveragerðis í kvöld til að spila þriðja leikinn í einvígi Keflavíkur og Hamars í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna. Það var mikið skorað í jöfnum og æsispennandi leik sem fór í framlengingu, en staðan eftir venjulegan leiktíma var 88-88. Lokatölur leiksins voru 101-103 Keflvíkingum í vil.
Fyrir leikinn höfðu bæði lið unnið sitthvoran leikinn á heimavelli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur í kvöld og komust í 6-0 en Hamarsstúlkur voru fljótar að taka við sér og jöfnuðu leikinn með þremur körfum. Liðin skiptust svo á að skora og var leikurinn jafn þar til um miðjan annan leikhluta þegar Keflavíkurstúlkur komust mest níu stigum yfir. Staðan í hálfleik var 45-52. Atkvæðamestar eftir fyrri hálfleik voru Kristi Smith og Birna Valgarðsdóttir hjá Keflavík og Julia Demirer og Kristrún Sigurjónsdóttir hjá Hamri.

Keflvíkingar höfðu yfirhöndina megnið af seinni hálfleik og voru alltaf skrefinu á undan. Hamarsstúlkur náðu að saxa á forskot Keflvíkinga með Juliu Demirer fremsta í flokki en hún fór gjörsamlega á kostum í leiknum. Guðbjörg Sverrisdóttir jafnaði leikinn með þriggja stiga körfu þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks en Pálína Gunnlaugsdóttir var fljót að koma Keflavík fjórum stigum yfir með tveim vítaskotum og sniðskoti. Þegar 17 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma jafnar Koren Schram leikinn með sniðskoti og staðan því 88-88. Birna Valgarðsdóttir reyndi þriggja stiga skot með um þrjár sekúndur eftir af leiknum en það vildi ekki ofan í og því var stefnt í framlengingu.


Bryndís Guðmundsdóttir opnaði framlenginguna með tveggja stiga skoti og kom gestunum úr bítlabænum yfir í 88-90. Stuttu síðar kemst Hamar í 95-92 eftir körfu góða frá Demirer en forskotið varði ekki lengi því Pálína Gunnlaugsdóttir jafnaði leikinn í 95-95 með þriggja stiga körfu. Þegar 12 sekúndur voru eftir af leiknum kom Demirer Hamarsstúlkum yfir með einu stigi, 101-100 og spennan í leiknum gríðarleg. Taugar Kristi Smith virðast vera úr stáli því hún tryggði Keflavíkurstúlkum sigur með þriggja stiga körfu þegar aðeins fjórar sekúndur lifðu leiks, en hún hefur verið að spila gríðarlega vel fyrir Keflavíkurliðið í vetur.


Stigahæstar í liði Keflavíkur voru Kristi Smith með 26 stig og 6 stoðsendingar og Birna Valgarðsdóttir með 25 stig og 12 fráköst. Hjá Hamri var Julia Demirer stórkostleg með 39 stig og 13 fráköst. Næst á eftir henni kom Koren Schram með 14 stig og 8 stoðsendingar.


VF/HBP