KR vann í fyrsta leiknum í Keflavík
„Höldum Keflavíkurstúlkunum undir sex stigum þessar tvær síðustu mínútur. Þá vinnum við leikinn,·“ sagði Jóhannes Árnason, þjálfari KR stúlkna á lokakafla spennandi leiks Keflavíkur og KR í 4ra liða úrslitum Iceland Express deild kvenna í körfubolta. KR tókst það og fór með öll stigin í fyrsta leik liðanna í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 77-78 fyrir vesturbæjarliðið sem vann Keflavík í bikarúrslitum fyrir nokkrum vikum.
Leikurinn var hnífjafn en heimaliðið alltaf aðeins á undan og forystan þó aldrei meiri en 9 stig. Eftir fyrsta leikhluta leiddi KR 20-21 en var undir 43-41 í leikhlé. Keflavík var með forystu undir lokin, 73-67 þegar um 5 mín. voru til leiksloka en þá tók við slakasti kafli liðsins í leiknum því liðið skoraði aðeins 4 stig til viðbótar. Sóknarleikur liðsins hreinlega hrundi, skottilraunir voru slakar og sjálfstraustið hvarf á örskotsstundu. Það var eins og sumar stúlkurnar vildu ekki fá boltann. TaKesha Watson sem kom til liðsins fyrir úrslitin gerði mörg mistök í síðasta leikhlutanum, bæði í sókn og þá missti hún boltann nokkrum sinnum. Keflavík náði þó eins stig forskoti þegar tæp hálf mínúta var til leiksloka en KR skoraði þegar 6 sekúndur voru til leiksloka. Jón Halldór tók leikhlé. TaKesha fékk boltann á kantinum og fór upp á þriggja stiga línunni en skot hennar geigaði og KR náði frákastinu og fagnaði sigri. En sökin var ekki eingöngu hennar. Það segir sína sögu þegar svo fá stig eru skoruð í lokin að enginn leikmaður var að skila góðri frammistöðu.
Jóhannes KR þjálfari náði upp góðri stemmningu í KR liðinu sem var sterkara í fráköstunum. Þær röndóttu börðust mun meira og hreinlega virtust vera meira hungraðar í sigur. Þá var Hildur þeirra Sigurðardóttir með 29 stig með 50% nýtingu að jafnaði í öllum sínum skotum nema 40% í 3ja stiga. Margrét Kara hefur komið gríðarlega sterk inn í KR liðið og hún skilaði 20 stigum.
TaKesha skoraði 16 stig og var langt frá því að skila sama og hún gerði í fyrra þegar Keflavík vann titilinn. Kannski er hún ekki í leikæfingu. Bryndís Guðmundsdóttir var best í Keflavíkurliðinu og skoraði 17 stig, Birna Valgarðs og Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir skiluðu báðar 12 stigum og Pálína Gunnlaugsdóttir 8 stig.
Það er ljóst að það er nauðsynlegt fyrir Keflavík að girða sig í brók og vinna næsta leik því það verður ekki þægileg staða annars. Vonandi tekst liðinu að ná upp meiri baráttu því þegar horft er á 5-6 manna hóp liðanna er Keflavík mun sterkara lið á pappírunum. En það segir ekki allt því þetta er í annað sinn sem KR vinnur í síðustu þremur viðureignum.
Takesha í baráttunni undir körfu KR í kvöld.
Ingibjörg Vilbergsdóttir með Hildi Sigurðardóttur í stífri vörn.
Kesha reynir skot. Hún skoraði 16 stig í leiknum en gerði mörg mistök í síðasta leikhlutanum.
Birna og Margrét Kara undir körfunni. Birna skoraði þarna tvö af 12 stigum sínum í leiknum. VF-myndir/Páll Orri Pálsson.