KR stal sigrinum í lokin 2-3 í dramatískum leik
Leik Keflavíkur og KR í Pepsi deildinni í knattspyrnu sem fram fór á Nettóvellinum í Keflavík, lauk nú fyrir skömmu þar sem KR fór með 2-3 sigur af hólmi en sigurmarkið kom þegar rúmar 92 mínútur voru liðnar.
Það var Frans Elvarsson sem skoraði fyrir Keflavík strax á fyrstu mínútu eftir að Hilmar Geir hafði komist upp að endalínu og gefið flotta sendingu fyrir þar sem Frans skallaði í netið af stuttu færi.
Það var svo Smalinn, Baldur Sigurðsson sem skoraði gegn sínum gömlu félögum eftir 12 mínútur og síðan þá hefur mikið gengið á og leikurinn fjörugur. Stemningin er góð enda fjölmennt á vellinum og Pumasveitin lætur í sér heyra.
Baldur var aftur á ferðinni fyrir KR og skallaði í autt markið eftir góðan undirbúning Kjartans Henry þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Magnús Þórir Matthíasson skoraði á 81. mínútu eftir að hafa fylgt eftir skoti Guðmundar Steinarssonar sem markvörður KR missti klaufalega frá sér.
KR kemst yfir þegar rúmlega 92 mínútur eru liðnar af leiknum með marki eftir hornspyrnu og þannig eru lokatölur í Keflavík í kvöld.