KR sópaði Grindvíkingum í snemmbúið sumarfrí
Njarðvík lagði Stjörnuna í háspennuleik í Ljónagryfjunni
Leikjum kvöldsins í úrslitakeppni Domino´s deildar karla er lokið þar sem að KR-ingar gerðu hreint fyrir sínum dyrum og munduðu sópinn í DHL höllinni í 14 stiga sigri á Grindavík, 94-80. Þar með er Grindvíkingum óhætt að bóka utanlandsferðir því að þeirra bíður sumarfríið eitt.
Njarðvíkingar tóku forystu í einvígi sínu við Stjörnuna í enn einum spennuleiknum þar sem að heimamenn unnu sætan 92-86 sigur.
Grindavík beið ærið verkefni, að sigra KR-inga þrívegis í þremur leikjum ef þeir ætluðu sér í næstu umferð. Sá slagur gekk því miður ekki upp í kvöld þar sem að KR-ingar hittu á draumaleik þar sem að Michael Craion fór mikinn og skoraði 38 stig.
Rodney Alexander var stigahæstur Grindvíkinga með 17 stig og honum næstur kom Jón Axel Guðmundsson með 14 stig og Þorleifur Ólafsson 13.
Nokkuð ítarlegt viðtal við fyrirliða Grindavíkur, Þorleif Ólafsson, sem að fagmennirnir á karfan.is tóku stuttu eftir leik má nálgast hér. Þar fer Þorleifur yfir rimmuna við KR og tímabilið í heild sinni sem að reyndist Grindvíkingum brösótt.
Njarðvíkingar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Stjörnunni til að komast yfir í einvíginu, 2-1. Leikurinn var eins og fyrri tvær viðureignir liðanna, hörkuspennandi og jafn fram í lok leiks en Njarðvíkingar kláruðu leikinn á vítalínunni í lokin og unnu afar sætan 92-86 sigur.
Stefan Bonneau fann fínni fjölina sína aftur í kvöld og skoraði 45 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 6 fráköst og daðraði þannig við þrefalda tvennu. Honum næstur var Mirko Virijevic með 11 stig og 11 fráköst.
Njarðvíkingar fá því tvær tilraunir til að gera úti um einvígið, þá fyrri í Ásgarði í Garðabæ á sunnudagskvöldið kemur.