Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 5. apríl 2000 kl. 15:32

KR og Grindavík í úrslit

KR og Grindavík unnu í gærkvöldi réttinn til að leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. KR vann Njarðvík á útivelli, 55:76 og Grindavík vann Hauka einnig á útivelli í hörkuspennandi leik, 56:59. Fyrsti leikurinn í úrslitunum verður í Grindavík þann 9. apríl.Það var gríðarleg spenna sem einkenndi leik Hauka og Grindvíkinga í Hafnarfirðinum í gær. Haukarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og léku stífa maður á mann vörn. Grindvíkingar tóku þó við sér og jöfnuðu í stöðuna 18:18, en þá náðu heimamenn aftur forskoti og voru sjö stigum yfir í hálfleik, 28:21. Grindvíkingar komu geysisterkir til síðari hálfleiks, þar sem þeir sýndu mikinn karakter og komust yfir í stöðunni 30:33, með Alexander Ermolinskij í fararbroddi. Síðari hálfleikurinn var þó mjög sveiflukenndur og skiptust liðin á að komast einu til tveimur stigum yfir. Á lokasekúndunum var allt útlit fyrir að framlengja þyrfti leikinn, því staðan var jöfn, 56:56. Þá kom til sögunnar Brenton Birmingham sem skoraði um leið og lokaflautið gall við og fékk að auki eitt vítaskot sem hann skoraði einnig úr. Lokastaðan því 56:59 og Grindvíkingar komnir í úrslit. „Vörnin var mjög sterk í fyrri hálfleik en sóknin flaut ekki alveg. Við ákváðum í hálfleik hvernig við ætluðum að vinna úr því og það gekk vel upp í seinni hálfleik, við opnuðum fyrir Brenton í skotin og Alexander var að skora fyrir okkur á gríðarlega mikilvægum augnablikum. Á endanum sýndum við einfaldlega að við erum með betra lið og unnum þetta,‰ sagði Pétur Guðmundsson, fyrirliði Grindvíkinga eftir leikinn. Leikur Njarðvíkur og KR var fjarri því að vera eins spennandi, enda Njarðvíkingar að spila langt undir getu. Þeir hittu illa og mikið var um mistök. Allt gekk hins vegar upp hjá KR-ingum, þar sem Keith Vassel fór fyrir sínum mönnum og átti stórleik (24 stig). Eftirtektarvert var að lykilmenn Njarðvíkinga, s.s. Teitur Örlygsson og Logi Gunnarsson náðu sér aldrei almennilega á strik í leiknum en stigahæstur heimamanna var Riley Inge með 16 stig. Teitur Örlygsson, fyrirliði Njarðvíkinga, vildi lítið tjá sig eftir leikinn: „Ég verð að horfa á þennan leik og sjá hvað við vorum að gera en það gekk bara ekkert upp hjá okkur í kvöld.‰
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024