KR-ingurinn Jónas Guðni útilokar ekki endurkomu á heimaslóðir
Langar að spila með litla bróður
Jónas Guðni Sævarsson er í ansi áhugaverðri stöðu. Hann er uppalinn Keflvíkingur sem tvisvar varð bikarmeistari með liðinu (‘04og ‘06). Nú klæðist hann röndóttri treyju Vesturbæinga þar sem hann hefur einnig nælt sér í tvo bikarmeistaratitla (‘08 og ‘12). „Þetta er skemmtilegt hvernig þetta æxlast. Maður er bara með „flashback“ frá 2006 þegar ég lék með Keflavík einmitt á móti KR, en nú er maður einmitt í hinu liðinu, þannig að þetta er skemmtileg tilviljun,“ segir fyrrum fyrirliði Keflavíkurliðsins.
„Það er spurning hvort mamma sitji í Keflavíkurstúkunni og pabbi KR megin“
Jónas á yngri bróður sem hefur verið að banka á dyrnar hjá meistaraflokki Keflavíkur, en sá er fæddur árið 1997 og heitir Fannar Orri Sævarsson. „Þetta verður afar erfitt fyrir foreldra okkar. Það er spurning hvort mamma sitji í Keflavíkurstúkunni og pabbi KR megin. Þau verða líklega bara að halda með liðinu sem vinnur,“ segir Jónas í léttum dúr. „Ég held að Fannar sé bara stoltur af bróður sínum og líti upp til hans. Auðvitað myndi hann vilja æfa með mér og spila með mér, það er aldrei að vita nema það verði einhvern tímann að veruleika. Það væri gaman að spila með litla bróður. Það kemur í ljós í framtíðinni en ég á eitt ár eftir af samningi mínum við KR.“ Þannig að þú lokar ekkert hurðinni á endurkomu á heimaslóðir? „Maður gerir það aldrei, það er ekki hægt að gera það,“ segir miðjumaðurinn sterki.
Ég held að það sé frábær stemning í Keflavíkurliðinu og mér fannst t.d. ofboðslega skemmtilegt að sjá myndir frá Víkurfréttum þar sem þeir fögnuðu sigri gegn Víkingum. Það er jafnvel eitthvað sem við þurfum að vara okkur á. Þrátt fyrir að hafa leikið gegn þeim í deildinni á mánudaginn, þá erum við að fara að mæta allt öðru Keflavíkurliði á laugardaginn.“
Kom upp lítill Keflvíkingur í þér við það að sjá fagnaðarlæti þeirra? „Já það kom svona smá, maður hugsaði að þarna væri mikil stemning og maður vill vera þar sem stemningin er. Stemningin er líka frábær hérna hjá okkur og mikil spenna fyrir þennan leik, það er mikið í húfi fyrir okkur að vinna titil þar sem við verðum að treysta á aðra til þess að næla í Íslandsmeistaratitilinn,“ segir Jónas að lokum.
Foreldrar bræðranna Jónasar Guðna og Fannars Orra eru í klemmu, með hvorum eiga þau að halda?
Munum eftir hashtagginu #vikurfrettir á laugardaginn