Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

KR-ingar unnu á seiglunni
KR-ingar hafa tekið 2-1 forystu í einvíginu - mynd: karfan.is
Sunnudagur 12. apríl 2015 kl. 19:49

KR-ingar unnu á seiglunni

Staðan 2-1 í einvíginu og Njarðvík með bakið upp við vegg

Þriðji leikur KR og Njarðvíkur í undanúrslitum Domino´s deildar karla fór fram í DHL höllinni í Vesturbænum í kvöld þar sem KR-ingar höfðu seiglusigur í sveiflukenndum leik 79-73.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur og komust í 9-2 á fyrstu 2 mínútum leiksins þar sem að Darri Hilmarsson og Michael Craion voru áberandi. Njarðvíkingar voru aftur á móti ekki mættir til að horfa á leikinn og snéru taflinu sér í vil með bættum varnarleik og komust í 11-14 til að loka leikhlutanum í stöðunni 15-23. Mirko Virijevic og Stefan Bonneau voru að spila vel í fyrsta leikhluta þar sem að sá fyrrnefndi hélt Michael Craion í skorðum varnarmegin á vellinum og frákastaði vel. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvík var áfram með frumkvæðið í 2. leikhluta en ekkert var skorað þar til að Ólafur Helgi Jónsson rauf þurrktíðina með þristi áður en Logi Gunnarsson setti niður 5 stig í röð til að koma Njarðvíkingum 15 stigum yfir þegar 5 mínútur lifðu hálfleiksins og KR ekki komið á blað í 2. leikhluta. Njarðvíkurstúkan var þétt setin í kvöld og létu ófáir stuðningsmenn liðsins vel í sér heyra. Heimamenn réttu þó úr kútnum áður flautað var til hálfleiks og unnu leikhlutann 18-14 og minnkuðu muninn í 4 stig fyrir hálfleik með þriggja stiga körfu frá Helga Má Magnússyni. Hálfleikstölur 33-37 fyrir Njarðvík

Stefan Bonneau var komin með 13 stig og Mirko Virijevic 9 stig fyrir Njarðvík. Hjá heimamönnum hafði Michael Craion sett 10 stig og Brynjar Björnsson 8. 

KR-ingar komu einbeittir inn í 3. leikhluta og höfðu komist yfir eftir fjögurra mínútna leik, 46-42, þar sem að Brynjar Björnsson og Darri Hilmarsson voru Njarðvíkingum erfiðir. Logi Gunnarsson hrökk þá í gang og þegar 2 og hálf mínúta voru eftir af 3. leikhluta kom hann Njarðvíkingum aftur yfir 50-53 með þristi úr erfiðu færi í horninu með 2 KR-inga sér til varnar. Liðin skiptust á að skora og Njarðvíkingar leiddu með 1 stigi fyrir lokafjóruninginn 56-57.

Stefan Bonneau opnaði svo 4. leikhluta með ævintýrakörfu og fékk víti að auki sem hann setti niður. Logi Gunnarsson kveikti svo eld í hjörtum stuðningsmanna og liðsins þegar hann plantaði enn einum þristinum niður til að koma Njarðvíkingum 7 stigum yfir. Finnur Stefánsson, þjálfari KR-inga, tók þá leikhlé til að reyna að slökkva eldana og lesa sínum mönnum pistilinn í leiðinni en KR-ingar áttu fá svör við vel samstilltum varnarleik Njarðvikinga á þessum kafla. Það reyndist borga sig þar sem KR-ingar tóku 11-0 skorpu og fráköstuðu sóknarmegin eins og enginn væri morgundagurinn á meðan Njarðvíkingar virkuðu hugmyndasnauðir í sókninni. Staðan orðin 67-63 fyrir KR þegar leikhlutinn var hálfnaður og tóku Njarðvíkingar nauðsynlegt leikhlé.

Lítið virtist leikhléið hjálpa til og Michael Craion stal 2 boltum í röð af Njarðvíkingum sem endaði í skoruðum körfum og Craion bætti svo við einni sjálfur. Á svipstundu voru KR-ingar komnir 10 stigum yfir og stemmningin þeirra megin. Mirko Virijevic lagaði stöðuna um 3 stig í næstu sókn áður en Logi Gunnarsson brenndi af opnu þriggja stiga skoti til að minnka muninn í 4 stig. Bonneau sprengdi svo upp vörn heimamanna og setti niður sniðskot og staðan 75-70 þegar 2 mínútur voru eftir. Njarðvíkingum tókst ekki að minnka muninn frekar eftir að hafa unnið boltann og Brynjar Björnsson fór langt með að klára leikinn þegar hann setti niður stökkskot þegar 55 sekúndur voru eftir og munurinn 7 stig. Lokasekúndur leiksins náðu ekki að vera spennandi þar sem heimamenn spiluðu örugglega í sínum aðgerðum og lönduðu sigri 79-73.

Steafan Bonneau var stigahæstur í liði Njarðvíkinga með 27 stig og 11 fráköst og þá skoraði Logi Gunnarsson 19 stig.

Í liði KR var Michael Craion atkvæðamestur með 24 stig og þeir Darri Hilmarsson og Brynjar Björnsson skoruðu 16 stig hvor.

KR-ingar hafa þar með tekið 2-1 forystu í einvíginu og geta klárað seríuna með sigri í Ljónagryfjunni í næsta leik. Njarðvíkingar eru með bakið upp við vegg og verða að leggja öll spilin á borðið ætli liðið sér að forðast sumarfrí. 

Liðin mætast aftur á miðvikudagskvöldið í Njarðvík.