KR-INGAR GERÐU LÍTIÐ ÚR KEFLVÍKINGUM
Keflavíkurstúlkur léku fyrsta leikinn í úrslitarimmunni gegn KR í gærkveldi og guldu afhroð 76-47. KR-ingar stjórnuðu leiknum frá upphafi, pressuðu Keflvíkinga stíft og skutu þær svo í kaf. Leikurinn var gott sem búinn í hálfleik enda komið 30 stiga óbrúanlegt bil. „Við mættum greinilega ekki tilbúnar til leiks og varnarleikur okkar í molum. Við verðum að mæta betur undirbúnar annað kvöld“ sagði Anna María Sveinsdóttir, þjálfari og leikmaður Keflvíkinga, að leik loknum. Keflavíkurliðið var óþekkjanlegt frá síðustu leikjum og okkar stúlkur stundum eins skjálfandi hríslur í urrandi Vesturbæjarrokinu. Annað kvöld fer fram í Keflavík lykileikur úrslitarimmunnar og þá kemur í ljós hvað í Keflavíkurstúlkurnar er spunnið en sigri KR-ingar eru engar líkur á að hægt verði að snúa við blaðinu.