KR-ingar einu númeri of stórir
Meistararnir með sigur í Njarðvík
KR-ingar reyndust einu númeri of stórir fyrir Njarðvíkinga þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni í Domino's deild karla í kvöld. Leikurinn var hin mesta skemmtun og jafnræði var með liðunum þrátt fyrir kaflaskiptan leik. Liðin skiptust 13 sinnum á að hafa forystu og 10 sinnum var jafnt. KR hafði 89:100 sigur að lokum.
Í hálfleik voru KR-ingar einu stigi yfir 48:49 eftir að Logi Gunnarsson hafði sent Njarðvíkinga í klefann með stolnum bolta og stökkskoti sem kveikti í áhorfendum. Þriðji leikhluti bauð upp á endurtekið efni. Jafnræði þrátt fyrir að Vesturbæingar hafi aukið forskotið í fjögur stig fyrir lokaleikhlutann. Allur vindur virtist úr heimamönnum í síðasta fjórðung. KR-ingar sökktu niður fjölmörgum opnum skotum og varnarleikur Njarðvíkinga hrundi. Þeir grænklæddu brutu ekki einu sinni á KR-ingum í lokaleikhlutanum fyrr en rúm mínúta var eftir af leiknum, þannig að þeir fengu nóg af plássi til þess að athafna sig.
Nokkrir Njarðvíkingar lögðu vel í púkkið í sóknarleiknum en samt virtist alltaf vanta herslumuninn hjá Njarðvíkingum til þess að hrista KR-inga af sér þegar þeir komust yfir. Haukur Helgi var flottur að vanda en virtist pirraður vegna þess að KR-ingar létu finna vel fyrir sér. Maciej, Logi og Atkinson voru einnig góðir í kvöld en KR-ingar reyndust einfaldlega of sterkir á lokasprettinum þar sem breidd þeirra kom greinilega í ljós.