KR í úrslit eftir tvíframlengdan leik!
Njarðvíkingar geta borið höfuðuð hátt
KR-ingar lögðu Njarðvík í oddaleik liðanna í DHL höllinni í kvöld eftir tvíframlengdan háspennuleik, 102-94.
KR-ingar byrjuðu leikinn af miklum eldmóð og komust í 16-0 áður en Njarðvíkingar náðu að svara fyrir sig. Í raun má segja að Njarðvíkingar hafi ekki byrjað leikinn fyrr en í öðrum leikhluta en liðið skoraði ekki körfu utan af velli fyrr en tæp mínúta var eftir af 1. leikhluta. Michael Craion var illviðráðanlegur undir körfunni og var búinn að skora 11 stig í 1. leikhluta.
Njarðvíkingar rönkuðu við sér í 2. leikhluta og hófu að spila af eðlilegri getu þar sem að Stefan Bonneau stimplaði sig rækilega inn í leikinn. KR-ingar höfðu þó yfirhöndina út hálfleikinn og leiddu í hálfleik 41-29. Bonneau var búinn að skora 10 stig fyrir Njarðvík og Logi Gunnarsson 8. Í liði heimamanna var Michael Craion óstöðvandi og kominn með 16 stig.
Liðin skiptust á körfum í þriðja leikhluta og KR-ingar að halda Njarðvíkingum 9-11 stigum frá sér mestan part fjórðungsins. Stefan Bonneau datt svo hressilega í gírinn og setti tvær körfur í tveimur sóknum þar sem hann fékk vítaskot að auki. Hann skoraði heil 21 stig í leikhlutanum og kveikti í þeim fjölmörgu áhangendum Njarðvíkurliðsins sem hvöttu sitt lið óspart áfram. Njarðvíkingum tókst að minnka munninn í 3 stig áður en 4. leikhluti byrjaði, 61-58, og KR-ingar komnir í töluverð villuvandræði.
Njarðvíkingar komust svo yfir, 63-64, þegar 8 mínútur lifðu leiks og ekkert virtist geta hægt á Stefan Bonneau sem var búinn að setja Njarðvíkurliðið á herðar sér. Helgi Már Magnússon fór svo útaf með sína 5. villu þegar 6 mínútur lifðu leiks og Njarðvík komið 6 stigum yfir og allt að ganga upp hjá gestunum. Lokamínútur venjulegs leiktíma voru svo rafmagnaðar þar sem að Njarðvíkingar komust 3 stigum yfir þegar 17 sekúndur voru eftir. Pavel Ermolinskij jafnaði svo metin með risaþristi þegar 10 sekúndur voru eftir og Njarðvíkingar fengu lokaskotið en tilraun Stefan Bonneau til að tryggja Njarðvíkingum sigur dansaði af hringnum og framlenging staðreynd.
KR-ingar byrjuðu betur í framlengingunni en Njarðvíkingar vildu ekki í sumarfrí og Bonneau jafnaði leikinn í 87-87 með þriggja stiga körfu þegar 1 og hálf mínúta voru eftir. Ekkert var skorað á þeim tíma sem eftir var og aftur fékk Bonneau lokaskotið til að innsigla sigurinn og aftur var hann ekki fjarri lagi. Það mátti skera spennuna í húsinu með hníf og stemmningin í húsinu alveg hreint rífandi góð þegar ljóst var að önnur framlenging kvöldsins yrði að veruleika.
Logi Gunnarsson kom Njarðvíkingum yfir, 92-93, með 3ja stiga körfu þegar 2 mínútur voru eftir og útlit fyrir að enn og aftur yrði þetta barátta uppá síðasta skot. Eitthvað varð undan að láta og það voru KR-ingar sem skoruðu næstu 7 stig og breyttu stöðunni úr 92-93 í 99-93 þegar 45 sekúndur voru eftir. Það reyndist gestunum of langt bil að brúa og KR-ingar fögnuðu vel og innilega þegar ljóst var að sigurinn væri þeirra.
Það er erfitt að lýsa þeirri stemmningu og þeim leik sem fram fór í DHL höllinni í kvöld. Annan eins körfuboltaleik verður erfitt að toppa. Einvígið í heild sinni var í einu orði sagt frábært og eiga bæði lið hrós skilið fyrir þá skemmtun sem áhorfendur og aðrir körfuboltaunnendur hafa fengið að fylgjast með. Í raun er sorglegt að þurfa að kveðja Njarðvíkurliðið sem að getur borið höfuðið hátt eftir einvígið þótt að skiljanlega verði erfitt að kyngja þessum ósigri næstu daga.
KR-ingar fara því í lokaúrslit Íslandsmótsins þar sem að þeir munu mæta nýliðum Tindastóls.
Stefan Bonneau átti enn einn stórleikinn og var langatkvæðamestur í Njarðvíkurliðinu í kvöld með lítil 52 stig og 12 fráköst. Maðurinn skoraði 42 stig í síðari hálfleik og framlengingunni og hreinlega setti upp eins manns sýningu á löngum köflum leiksins. Logi Gunnarsson átti einnig góðan leik með 19 stig og 7 stoðsendingar en liðið fékk ekki nema 6 stig frá næsta manni sem að gæti hafa háð liðinu þegar upp er staðið.
Í liði KR var Michael Craion magnaður og skoraði 36 stig og tók 23 fráköst! Pavel Ermolinskij skoraði 16 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og Brynjar Björnsson skoraði svo 14 stig og Darri Hilmarsson 11.