KR 80 stigum betra í fyrra
Toppslagur í Keflavík þar sem KR kemur í heimsókn
Sannkallaður slagur stórvelda fer fram í toppbaráttunni í Domino’s deild karla í körfubolta í kvöld þegar Keflvíkingar fá KR í heimsókn í TM-höllina. Keflvíkingar eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga á meðan KR-ingar hafa tapað einum leik og narta í hæla Keflvíkinga.
KR hafði algjöra yfirburði í rimmum liðanna í fyrra. Liðin mættust fyrst í Keflavík á síðasta tímabili þann 30. október þar sem KR vann 23 stiga sigur, 67-90. Í seinni leik liðanna í deildinni unnu KR enn stærri sigur, 109-73 í Vesturbænum.
Liðin mættust einnig í bikarnum þann 18. janúar þar sem KR sigraði enn og aftur, nú með 21 stiga mun, 111-90. Þannig að samtals unnu KR-ingar leikina milli liðanna með 80 stiga mun í fyrra.
Nettó ætlar að bjóða frítt á leikinn sem hefst kl. 19:15 þannig að búast má við fjölmenni og stemningu á þessari topprimmu.