Kostur býður frítt í Ljónagryfjuna
Njarðvíkingar leika sinn síðasta deildarleik í 1. deild kvenna í körfuknattleik annað kvöld þegar deildarmeistarar Snæfells koma í heimsókn. Leikur liðanna hefst kl. 19:15.
Snæfellingar munu leika í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð en Njarðvík og Haukar B hafa bæði 24 stig í 2.-3. sæti deildarinnar og með sigri geta Njarðvíkingar náð 2. sætinu af Haukum B.
Njarðvíkingar hafa telft fram ungu og nokkuð óreyndu liði í vetur en hafa engu að síður verið í toppbaráttunni en verða að leika annað tímabil í 1. deild en þess er væntanlega ekki lengi að bíða að Njarðvíkingar spili að nýju í úrvalsdeild.
Í leiknum annað kvöld verður dregið í NBA leik unglingaráðs UMFN. Sigurlaunin eru miðar á leik í NBA deildinni en allir krakkar sem æfa körfubolta hjá UMFN og hafa greitt æfingagjöldin eru með í pottinum þegar dregið verður í leiknum.
Verslunin Kostur í Njarðvík býður frítt á leikinn í Ljónagryfjunni.