Körfuknattleikur: Grindavík tapar í karlaflokki, vinnur í kvennaflokki
Intersport-deildin
GRINDAVÍK-SNÆFELL
Grindavík fékk Snæfellinga í heimsókn í Röstina í toppslag Intersport-deildarinnar í kvöld. Leikar fóru þannig að gestirnir frá Stykkishólmi unnu góðan sigur eftir hörkuleik, 83-89. Þannig munar bara 2 stigum á liðunum eftir 14 umferðir og nóg eftir í pottinum.
Hólmarar mættu ákveðnir til leiks og leiddu eftir fyrsta leikhluta, 14-20 en Heimamenn náðu að rétta sinn hlut fyrir leikhlé með frábærum kafla og höfðu þar sex stiga forystu. Fyrir síðasta leikhluta höfðu Snæfellingar náð Grindvíkingum á ný og leiddu með einu stigi, og þeir héldu forystunni allt til leiksloka.
Páll Axel Vilbergsson og Helgi Jónas Guðfinnsson voru stigahæstir heimamanna með 21 stig og er gaman að sjá Helga kominn í gang að nýju. Darrel Lewis kom næstur með 14 stig og 13 fráköst, en átti alls ekki góðan leik miðað við þess sem af honum er vænst.
Dondrell Whitmore var stigahæstur í jöfnu liði gestanna með 18 stig og 10 fráköst, en Edmund Dotson skoraði 16 stig ásamt því að taka 10 fráköst. Þá skoruðu Hlynur Bæringsson og Corey Dickerson 15 stig hvor.
1. deild kvenna
ÍR-GRINDAVÍK
Grindavíkurstúlkur eru á góðri siglingu í 1. deildinni eftir slaka byrjun og berja nú fast að dyrum inn í úrslitakeppnina. Útisigur þeirra á botnliði ÍR í kvöld var þriðji sigur þeirra í röð og var nokkuð sannfærandi. Grindvíkingar voru yfir allan leikinn, en náðu ekki afgerandi forystu fyrr en þær fóru yfir 20 stiga mun í seinni hálfleik.
Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindvíkinga, er ánægður með velgengnina að undanförnu, en sagði þó hafa orðið var við kæruleysi í leik sinna stúlkna í kvöld. „ÍR-ingarnir eru náttúrulega kanalausar núna og við vorum búnar að vinna fyrstu tvo leikina gegn þeim með kanann, þannig að við vorum sæmilega sigurviss fyrir kvöldið. Það er erfitt að ná upp stemmningu fyrir svona leiki, en ég vona að stelpurnar verði reiðubúnar íleiknum gegn KR um næstu helgi.“
Kesha Tardy gerði 33 stig fyrir Grindavík og tók 11 fráköst. Þá skoraði Sólveig Gunnlaugsdóttir 14 stig.
Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 22 stig fyrir ÍR og Sara Andrésdóttir 11.