Körfuknattleikskona Íslands er komin heim
Sara Rún gengin í raðir Keflvíkinga
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur var rétt í þessu að tilkynna að Sara Rún Hinriksdóttir hefur gengið til liðs við félagið að nýju eftir að hafa verið í atvinnumennsku undanfarin ár. Sara spilaði síðast undir merkjum Keflavíkur árið 2019 þegar hún lék ellefu í leiki í deild og úrslitakeppni þar sem skoraði að meðaltali 16,7 stig og tók 7,1 frákast.
Eflaust kemur Sara Rún til með að styrkja Keflavíkurliðið á lokaspretti tímabilsins en Keflavík er eitt í efsta sæti Subway-deildar kvenna og einnig komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar – svo Keflavík stefnir leynt og ljóst að því að vinna titla í ár.
Keflvíkingar þekkja Söru vel en hún er uppalin Keflvíkingur og hefur verið valin körfuknattleikskona ársins síðustu fjögur ár auk þess að vera einn helsti prímusmótor íslenska landsliðsins. Sara hélt í háskólanám til Bandaríkjanna þar sem hún þótti standa sig vel í háskólaboltanum. Eftir nám hefur Sara verið í atvinnumennsku og leikið með liðum í Rúmeníu, á Englandi, Ítalíu og nú síðast Spáni en hún rifti samningi sínum við spænska félagið Sedis Bàsquet í byrjun vikunnar.
Hér að neðan má sjá kynningarmyndband sem Keflvíkingar tóku saman af tilefninu.