Körfuknattleiksdeild Keflavíkur biðst afsökunar
- Afsökunarbeiðni vegna ólíðandi framkomu nokkurra stuðningsmanna Keflavíkur
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur (KKDK) vill koma á framfæri afsökunarbeiðni til Stjörnunnar og starfsfólks félagsins vegna ólíðandi framkomu nokkurra stuðningsmanna Keflavíkur á leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta og fjallað hefur verið um á vefsíðunni www.sport.is.
KKDK hefur reynt eftir fremsta megni að koma í veg fyrir framkomu sem þessa. Hefur þannig verið biðlað til stuðningsmanna félagsins að fylgja þeim reglum sem eru í gildi um meðferð áfengis á kappleikjum, sýna mótherjanum og starfsfólki hans ávalt virðingu og einbeita sér að því að styðja Keflavíkurliðið til góðra verka á leikvellinum. Vitað er hverjir umræddir aðilar eru og sem betur fer eru þeir aðeins brot af annars frábærum stuðningsmönnum félagsins.
Á þessu tiltekna atviki verður tekið af hálfu KKDK og er það einlæg von okkar að þetta komi ekki fyrir aftur. Einvígi Keflavíkur og Stjörnunnar er skemmtilegt og spennandi og þannig viljum við hafa það áfram.
Með körfuboltakveðju,
Stjórn KKDK