Körfuboltaveisla á laugardaginn
Gríðarleg stemmning er í Grindavík fyrir bikarúrslitaleikinn á laugardag þegar lið Grindavíkur og Snæfells mætast í Laugardalshöll. Leikurinn hefst kl. 16.
Lið Hauka og Keflavíkur leikur í bikarúrslitum kvenna þennan sama dag kl. 14.
Reynslumesti leikmaður Grindavíkurliðsins í bikarúrslitaleikjum er Guðlaugur Eyjólfsson sem hefur unnið þrjá titla. Hann segir að fyrsti bikarmeistaratitillinn sem hann vann með liðinu 1998 hafi verið sá eftirminnilegasti. Þá var hann bara 17 ára og spennan var svo mikil að hann svaf ekkert nóttina fyrir leik. Grindavík sigraði KFÍ í þeirri viðureign.
Grindavík varð svo bikarmeistari árið 2000 eftir tvísýna viðureign við KR. Næsti bikarmeistaratitill kom svo árið 2006 þegar Grindavík skellti nágrönnum sínum í Keflavík.
Guðlaugur rifjar upp bikarmeistarasögu Grindavíkur í samtali við fréttavef bæjarins, sjá hér.
Ef litið er til innbyrðis viðeigna liðanna þá má búast við magnþrunginni spennu á laugardaginn. Í nóvember mættust liðin í æsispennandi viðureign þar sem Grindavík sigraði með aðeins einu stigi eftir framlengdan leik, 95-94.