Körfuboltamenn ósáttir við þrettándagleði
Hátíðin haldin í íþróttahúsinu í Grindavík
Jóhann Þór Ólafsson þjálfari meistaraflokksliðs Grindavíkur karla í körfubolta er ekki sáttur við þá ákvörðun bæjarráðs að halda þrettándagleði daginn fyrir leik hjá liðinu. Grindvíkingar höfðu í hyggju að halda æfingu á sama tíma og skemmtunin fer fram. Jóhann tjáði sig um málið á Facebook síðu sinni þar sem hann segir m.a. að íþróttahúsið eigi fyrst og fremst að nota undir íþróttir, þær eigi að hafa forgang fram yfir menningartengda atburði sem hæglega mætti halda á öðrum stöðum. Pistil Jóhanns má sjá hér að neðan.
,,Ég eins og allir þjálfarar sem að hér hafa þjálfað þarf að standa í stappi varðandi tíma í húsinu í hverri viku. Hérna eru margir flokkar í 3-4 mismunandi greinum sem að þurfa sína tíma til þess að æfa og keppa. Við þurfum oft að æfa seint og í hálfum sal. Ég er ekki að fara að þrasa um að húsið sé of lítið og að það þurfi nýtt hús og öll sú umræða, er búinn að fá nóg af henni í bili. Máið er að núna á fimmtudaginn er okkar fyrsti leikur eftir áramót. Samkvæmt okkar stundartöflu æfum við kl 19:30 á þriðjudag en það er kvk leikur í húsinu kl 19:15 og æfum við eftir hann ef að samkomulag næst við aðra flokka um tímann eftir leikinn. Svo er æfing kl 18:00 á miðvikudag. En nú er búið að setja á þrettándagleði í húsið sem að hefst kl 18:00. Þetta þýðir að við getum ekki hafið æfingu fyrr en eftir þessa gleði sem að verður aldrei fyrr en 20:30.
Hinsvegar á kvk liðið æfingu á þessum tíma og þurfum við þjálfararnir að semja um salinn á þessum frábæra tíma. Þetta finnst mér alls ekki nógu gott og í raun fáranlegt. Það sem að ég vill vekja athygli á er að hvers vegna er það bara sjálfsagður hlutur að við sem að erum að reyna að halda úti metnaðarfullu starfi þurfum að víkja fyrir þrettándagleði sem að er hægt að halda utandyra eða í öðrum húsum/sölum hér í bæ. Hver tekur þessar ákvarðanir og hvernig er þetta unnið? Er það bara sjálfsagt mál hjá þeim sem þetta ákveða að við lúffum bara fyrir þessu? Það er s.s flott mál að hægt sé að nota íþróttahúsið í annað en bara þessar inni íþróttir en eiga íþróttirnar ekki að vera í forgang? Þetta er íþróttahús númer 1,2 og 3 og ,,menningarhús" númer 4,5 og 6. Eða það er allaveg mitt mat. Það er nóg stapp eins og áður sagði um tíma þó að það þurfi ekki að vera að bæta þessu ofan á líka.“