Körfuboltakrakkar á leið til Tyrklands
Bríet Hinriksdóttir úr Keflavík fór áleiðis til Tyrklands í gær til að taka þátt í æfingabúðum FIBA og tyrkneska körfuknattleikssambandsins. Einnig fór Högni Fjalarsson úr KR og með þeim í för er Örvar Kristjánsson þjálfari en hann mun taka þátt í æfingabúðunum.
FIBA og tyrkneska körfuknattleikssambandið hafa efnt til æfingabúða fyrir efnilega krakka sem eru fædd á árinu 1996. Þessar æfingabúðir sem nefnast Children of the World eru í tengslum við HM í körfubolta sem hefst í endaðan ágúst.
Þetta verkefni sem FIBA og tyrkneska sambandið hafa sett á laggirnar er afar metnaðarfullt en krakkar frá um 120 löndum mæta ásamt þjálfurum. Það er ljóst að þetta er einstakt tækifæri fyrir krakkana að fá að taka þátt í þessum æfingabúðum.
Ásamt því að æfa daglega við frábærar aðstæður fá krakkarnir tækifæri til að sjá nokkra leiki á heimsmeistaramótinu og fá þau m.a. að sjá bandaríska landsliðið spila.
Örvar Kristjánsson þjálfari ræddi við www.kki.is um þetta ævintýri sem þau eru að fara út í. „Þetta er auðvitað alveg einstakt tækifæri fyrir okkur öll að verða vitni að þessum gríðarlega merkilega viðburði sem HM er. Auk þess eru þessar æfingabúðir spennandi og þarna getur maður borið saman bækur sínar við þjálfara og leikmenn frá yfir 100 löndum sem er ótrúlega spennandi. Þetta verður einfaldlega bara gríðrlega mikið ævintýri fyrir okkur og mikill heiður að fara þarna fyrir hönd Íslands“.
Hægt er að lesa nánar um æfingabúðirnar hér.