Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Konur - Hvernig koma Suðurnesjaliðin undan sumri?
Keflvíkingar unnu tvöfalt í fyrra. Hvernig spjara þær sig í ár?
Laugardagur 12. október 2013 kl. 09:39

Konur - Hvernig koma Suðurnesjaliðin undan sumri?

Dominos-deild kvenna skoðuð

Körfuboltinn er loksins að byrja. Margir hafa eflaust beðið spenntir eftir að hausta tæki og að þessi Suðurnesjaíþrótt hæfi göngu sína á ný. Nú er komið að því. Að venju hafa verið birtar spár sem fjölmiðlar og kaffistofuspekingar gera sér mat úr. Við hér á Víkurfréttum ætlum ekki að velta okkur of mikið upp úr spádómum en hins vegar ætlum við að skoða Suðurnesjaliðin og sjá hvernig þau koma undan sumri. Nú þegar er einni umferð lokið en þar unnu Grindvíkingar og Keflvíkingar sigra, á meðan Njarðvíkingar töpuðu.

Getur Pálína fært Grindvíkingum titla?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Petrúnella er í barneignarfríi.Grindavíkurkonur hafa óneitanlega styrkt lið sitt verulega með komu Pálínu, Ingibjargar og Maríu Ben. Þær þurfa þó að sjá á eftir Petrúnellu Skúladóttur í barneignarfrí og Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem er hætt og haldin á vit ævintýranna í Hollywood. Eins virðist hin efnilega Ingibjörg Yrsa hafa valið fótboltann en hún er ansi frambærileg á báðum sviðum. Berglind Anna spilaði stóra rullu með liðinu í fyrra og hennar verður einnig sárt saknað. Jón Halldór þjálfari segist vera í boltanum til þess að vinna titla. Með besta leikmann Íslandsmótsins undanfarin ár (Pálínu) ætti það að vera á boðstólum. Sökum mikils brottfalls má þó setja spurningarmerki við breidd hópsins.

Mikilvægasti leikmaður: Pálína María Gunnlaugsdóttir.

Komnar:
Pálína María Gunnlaugsdóttir    Keflavík
Ingibjörg Jakobsdóttir                Keflavík
Lauren Oosdyke                         USA
María Ben Jónsdóttir                  Frakkland   
   
Farnar:   
Petrúnella Skúladóttir                Frí
Berglind Anna Magnúsdóttir     Nám
Ingibjörg Sigurðardóttir            Hætt
Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir       Hætt
Alexandra Marý Hauksdóttir    Hætt
Harpa Hallgrímsdóttir               Hætt
Sandra Ýr Grétarsdóttir             Hætt
Ólöf Helga Pálsdóttir                 Hætt
Hulda Sif Steingrímsdóttir         Hætt
Crystal Smith                            Annað

 

Sanda Lind er einn efnilegasti leikmaður Keflvíkinga. Hún fær tækifæri til þess að sanna sig í vetur.

Nú er komið að næstu kynslóð

Yngri flokkar Keflavíkur í kvennaboltanum virðast framleiða frambærilega leikmenn á færibandi. Liðið mun í vetur treysta á ungar stúlkur í auknum mæli en fleiri bætast sífellt í hópinn ár hvert. Það liggur beinast við að ætla Söru Rún Hinriksdóttur að fylla skarð Pálínu sem hvarf í faðm Jóns Halldórs í Grindavík. Sara er ennþá unglingur en hæfileikarnir eru vissulega til staðar og það hefur hún sýnt. Ef hún ásamt öðrum ungum leikmönnum taka við keflinu þá er aldrei að vita hvað veturinn ber í skauti sér hjá Keflvíkingum. Allir þessir ungu leikmenn þekkja varla annað en titla en nú er kominn tími til þess að skemmta á stóra sviðinu.
Birna Valgarðsdóttir er enn til staðar en þar fer mikill reynslubolti. Hún ásamt Bryndísi Guðmundsdóttur verða að eiga gott ár og án meiðsla ef Keflvíkingar ætla sér að vera í toppbaráttu. Þjálfarinn Andy Johnston hefur komið með nýjar leikfléttur í ferðatöskunni frá Bandaríkjunum og samkvæmt heimildum Víkurfrétta áttu leikmenn hreinlega í stökustu vandræðum með að læra öll þessi nýju kerfi. Það á líka við um karlalið Keflavíkur.

Mikilvægasti leikmaður: Sara Rún Hinriksdóttir.

Komnar:
Elínóra Guðlaug Einarsdóttir    Yngri flokkar   
Helena Ósk Arnardóttir             Yngri flokkar
Írena Sól Jónsdóttir                   Yngri flokkar
Krisrtún Björgvinsdóttir            Yngri flokkar
Ellen Hrund Ólafsdóttir             Yngri flokkar
Ólöf Rún Guðsveinsdóttir          Yngri flokkar
Porsche Landry                          USA
   
Farnar:   
Pálína María Gunnlaugsdóttir    Grindavík
Ingibjörg Jakobsdóttir                Grindavík
Jessica Ann Jenkins                   Annað


Guðlaug Björt Júlíusdóttir.    

Lífið erfitt án Lele

Þetta verður erfiður vetur fyrir Njarðvíkinga. Það eitt að missa Lele Hardy er líkt og fyrir Cleveland að missa Lebron James um árið í NBA deildinni. Svo magnaður leikmaður er Lele Hardy. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir er sjálfsagt komin með bakverk eftir að hafa þurft að teygja sig eftir skónum á hillunni í sífellu, þannig að hún hefur ákveðið að láta þá bara eiga sig. Þær Ína María og Eyrún Líf fóru til Reykjavíkur í fyrra og ekki hafa þær skilað sér til baka. Því er ljóst að Njarðvíkingar hafa enn og aftur orðið fyrir mikilli blóðtöku og ekki er mikið eftir af því liði sem sigraði tvöfalt vorið 2012. Aldursforsetar Njarðvíkurliðsins eru núna aðeins 22 ára! Meðalaldur liðsins er 19 ár. Nú verða ungar stelpur að sanna sig hjá Njarðvíkingum en nokkrir efnilegir leikmenn leynast hjá félaginu. Það verður þó að viðurkennast að Njarðvíkingar eiga eftir að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Mikilvægasti leikmaður: Guðlaug Björt Júlíusdóttir.         

Komnar:
Jasmine Beverly                    USA
Andrea Björt Ólafsdóttir        Ítalía   
Soffía Rún Skúladóttir           Yngri flokkar
Elísabet Guðnadóttir              Yngri flokkar
Karen Dögg Vilhjálmsdóttir   Yngri flokkar
   
Farnar:   
Lele Hardy                                  Haukar
Karolina Chudzik                        Hætt
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir       Hætt
Ína María Einarsdóttir                  KR
Eygló Alexandersdóttir                Hætt
Eyrún Líf Sigurðardóttir               Fjölnir
Emelía Ósk Grétarsdóttir              Hætt
Ásta Magnhildur Sigurðardóttir    Hætt
Árnína Lena Rúnarsdóttir             Hætt