Komu sjálfum sér á óvart og sigruðu Valsmenn
Grindvíkingar eru í 3. sæti í úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Pepsí-deildinni, eftir sætan sigur á Valsmönnum í Grindavík í kvöld. Andri Rúnar Bjarnason skoraði eina mark leiksins og sigurmark Grindavíkur í byrjun síðari hálfleiks.
Leikurinn var fjörugur strax frá fyrstu mínútu. Gestirnir voru þó meira með boltann en Grindvíkingar áttu hættulegar skyndisóknir og fjölmörg færi voru í leiknum. Markalaust var þegar flautað var til hálfleiks og ljóst að síðari hálfleikur yrði spennandi, því hvorugt liðið virtist ætla að gefa eftir.
Það voru rétt liðnar fimm mínútur af síðari hálfleik þegar Valsmenn gerðu mistök sem Grindvíkingar nýttu sér til fulls, Andri Rúnar var réttur maður á réttum stað og afgreiddi boltann í netið.
Valsmenn sóttu stíft en Grindvíkingar voru ákveðnir í að verjast. Heimamenn misstu Alexander V. Þórarinsson útaf þegar 7 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Við það þurftu Grindvíkingar að endurskipuleggja leikskipulagið. Þeir lögðu alla áherslu á að verjast en áttu einnig nokkrar hættulegar sóknir og m.a. var Hákon Ívar Ólafsson nálægt því að gera út um leikinn á lokamínútunni.
Framlenging upp á þrjár mínútur voru einnig þær lengstu þrjár mínútur sem Grindvíkingar höfðu upplifað en fögnuðurinn var mikill þegar flautað var til leiksloka og ljóst að Grindavík hafði farið með sigur af hólmi og liðið komið með 10 stig eftir fimm umferðir, eitthvað sem Grindvíkingar geta verið glaðir með. „Við getum meira að segja komið sjálfum okkur á óvart,“ sagði einn úr innsta kjarna Grindavíkur strax eftir leikinn þegar hann fylgdi liði sínu af Grindavíkurvelli í kvöld.