Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Komst í heimsklassa eftir að hafa íhugað að hætta
Syndandi læknir: Kristófer er nýlega orðinn 19 ára og tekur stefnuna á háskólanám í Bandaríkjunum næsta haust. Nú þegar hefur fjöldi skóla haft samband við hann en Kristófer stefnir á að læra til læknis.
Sunnudagur 30. nóvember 2014 kl. 07:00

Komst í heimsklassa eftir að hafa íhugað að hætta

Jákvætt viðhorf gerir gæfumuninn hjá Kristófer Sigurðssyni

Keflvíkingurinn Kristófer Sigurðsson hefur komist í fremstu röð sundmanna landsins á skömmum tíma. Á uppskeruhátíð Sundsambands Íslands á dögunum var hann valinn karlkyns sundmaður Íslandsmeistaramótsins í 25 metra laug fyrir árangur sinn í 400 metra skriðsundi, en hann varð Íslandsmeistari í þeirri grein, en auk þess er hann Íslandsmeistari í 100 og 200 metra skriðsundi. Hann mun keppa á Heimsmeistaramótinu í Doha í Qatar í þessum þremur greinum.

Hann setti sér það markmið í vor að komast á mótið í Qatar, en Kristófer segir sundmenn stöðugt vera að setja sér markmið, hvort sem það snúist um að bæta tækni, tíma eða styrk. „Ég vissi að ég gæti náð þessum tímum ef ég æfði nóg. Ég útilokaði þetta aldrei,“ segir sundmaðurinn öflugi. Stöðugur stígandi hefur verið hjá Kristófer á þessu ári og er hann sífellt að bæta sig. Hann segir engan leyndardóm liggja að baki þessum árangri, en líklega hefur jákvætt viðhorf breytt miklu. „Þetta er bara spurning um að vera jákvæður og aldrei efast um getu sína. Aldrei draga sjálfan þig niður með neikvæðum hugsunum, þá nærðu aldrei því sem þú ætlar þér,“ segir hann. „Það er mikilvægt að vera með hausinn í lagi. Þetta er bara þú og vatnið þegar uppi er staðið,“ bætir hann við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er ekki langt síðan að Kristófer íhugaði að hætta í sundi. Árangurinn lét þá á sér standa og ekki var mikið um bætingar. Svo skyndilega breyttist allt. „Ég var góður þegar ég var 11-12 ára. Næstu ár eftir það voru frekar erfið hjá mér. Ég var ekki langt frá því að hætta á tímabili. Síðan allt í einu þá fór ég að bæta mig töluvert, ég veit ekki alveg hvað gerðist,“ en það var bara síðast fyrir rúmu ári síðan að Kristófer íhugaði að hætta að synda. „Ég er mjög feginn í dag að hafa ekki hætt,“ segir hann en í dag er Kristófer að daðra við að vera í heimsklassa í sundinu. „Það er skrýtið að hugsa til þess að hafa náð þessum árangri svo skömmu eftir að hafa íhugað að hætta, en á sama tíma er það skemmtilegt.“

„Ég hef þurft að hafa heilmikið fyrir þessu og mikil vinna að baki þessum árangri.“ Þar er Kristófer ekkert að ýkja en hann syndir að jafnaði 10-12 sinnum í viku. Lyftir fimm sinnum og stundar svo jóga líka. „Það koma alveg tímar þar sem erfitt er að fókusa enda er auðvelt að finna sér afsökun fyrir því að æfa ekki. En maður rífur sig alltaf upp og æfir af krafti. Það er eina leiðin til þess að ná þeim árangri sem maður stefnir að.“

Af hverju ekki?

Hann segist sáttur við frammistöðu sína á ÍM25 á dögunum. „Ég hefði viljað ná A-lágmörkum í 400 metra skriðsundi en ég var grátlega nærri því,“ en Kristófer ætlar sér að ná þessum A-lágmörkum í 200 og 400 metra skriðsundi á mótinu í Qatar, þá verður hann sáttur. Hann á sér háleit markmið og gælir jafnvel við það að fara á stærsta sviðið, sjálfa Ólympíuleikana árið 2016. „Það væri alls ekki leiðinlegt að fara á Ólympíuleikana í Ríó. Af hverju ekki?“