Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kominn tími á titil í Njarðvík
Laugardagur 11. janúar 2014 kl. 10:00

Kominn tími á titil í Njarðvík

Njarðvíkingurinn Breki Logason, fréttastjóri Stöðvar 2 fer yfir íþróttaárið 2013.

Njarðvíkingurinn Breki Logason fylgist vel með íþróttalífinu á Suðurnesjum þrátt fyrir að vera búsettur á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann starfar sem fréttastjóri Stöðvar 2. Breki var hrikalega svekktur þegar hans menn í körfunni féllu úr leik í úrslitakeppninni í fyrra, en að hans mati var helsta afrek Suðurnesjamanna á síðasta íþróttaári það að landa stóru titlunum í körfuboltanum. Fréttastjórinn fór yfir árið 2013 í sportinu.

Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það sem stendur uppúr í íþróttalífinu á Suðurnesjum eru klárlega tveir Íslandsmeistaratitlar í körfuboltanum. Grindvíkingar voru einfaldlega langbestir hjá körlunum og Keflavík hjá stelpunum. Mikið afrek hjá Grindavík að verja titilinn. Ég fylgist aðallega með boltaíþróttunum og fannst gaman að fylgjast með Keflavík seinni hluta tímabils í fótboltanum hjá körlunum. Mikið af ungum frábærum leikmönnum sem stigu upp og liðið kláraði vel. Arnór Yngvi átti skilið að taka næsta skref eftir frábæra frammistöðu. Leiðinlegt að missa hann út en hann á eftir að bæta sig á hærra leveli, engin spurning.     

Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?

Það var náttúrulega hrikalega svekkjandi þegar maður var mættur í Fjárhúsið í Stykkishólmi í oddaleik og stúkan nánast græn að klára ekki þann leik. Var hrikalega ánægður með mína menn og hélt á tímabili að þeir myndu klára þetta. Töpuðu samt fyrir góðu liði. Ánægjulegast var að maður vissi að daginn eftir voru þessir drengir mættir á æfingu að undirbúa sig undir næsta tímabili. Þeir hafa líka verið flottir í vetur.

Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?

Nefni Arnór Yngva Traustason knattspyrnumann úr Keflavík og svo er það náttúrulega minn maður í körfunni, Elvar Már Friðriksson. Ég man vel eftir pabba hans og ég held svei mér þá að strákurinn sé nú þegar orðinn betri. Einn af þessum strákum sem er með hausinn í lagi og þess vegna á hann eftir að ná langt. Flottur á velli og nálgast leikinn á réttan hátt. Vona samt innilega að hann skili einni dollu í hús áður en hann fer út í heim og slær í gegn.
   

Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?

Fylgist bara með körfubolta og fótbolta. Það er bjart yfir körfunni á Suðurnesjum eins og alltaf. Samt kominn tími á titil í Njarðvík.

Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?

Það er mikil hefð í kringum íþróttir á Suðurnesjum og þar eru menn tilbúnir að taka sjénsa og prófa eitthvað nýtt. Sáum Njarðvík gera það í körfunni fyrir nokkrum árum og það hefur nú þegar skilað sér í hrikaleg flottu og skemmtilegu liði. Flott líka hjá Keflvíkingum að taka inn erlendan þjálfara. Það er öðruvísi og óvænt. Ég hef alltaf verið hrifinn af því.  Ég get því ekki séð neitt annað en að Suðurnesjamenn haldi áfram að vera í fremstu röð í íþróttalífi okkar Íslendinga á næsta ári.

Friðrik Ragnarsson sækir að körfunni en Elvar Már sonur hans er til varnar í góðgerðarleik sem haldinn var árið 2012. Breki telur að Elvar sé nú þegar orðinn betri en sá gamli.