„Kominn tími á titil í Grindavík“ segir Benóný Harðarson
Í kvöld mætast Suðurnesjastórveldin Grindavík og Keflvík í Iceland Express-deild karla en leikurinn hefst klukkan 19:15 í Röstinni í Grindavík. Heimamenn í Grindavík hafa bætt við sig sterkum leikmönnum fyrir komandi átök í vetur og er Benóný Harðarson, einn af dyggari stuðningsmönnum liðsins, afar bjartsýnn á veturinn.
„Mér líst bara ótrúlega vel á þetta og tel að við séum með eitt sterkasta lið sem við höfum haft í langan tíma. Góðan þjálfara og sá erlendi leikmaður sem er kominn til landsins hann lítur alveg hrikalega vel út, þannig að ég er bara bjartsýnn,“ segir Benóný Harðarson stuðningmaður Grindvíkinga.
Hver mun blómstra hjá Grindvíkingum í vetur?
„Ég held að það verði tveir leikmenn sem þar ber að nefna. Ólafur Ólafsson á eftir að algjörlega blómstra og svo er það annar sem að á eftir að koma á óvart, það er Ármann Vilbergsson sem er búinn að vera hrikalega duglegur að æfa í sumar og gæti komið til með að verða eins konar aukaprímusmótor hjá okkur í vetur.“
Hver er x-faktorinn í liðinu?
„Giordan Watson eins og staðan er í dag. Eins og hann spilaði gegn KR í meistaraleiknum um daginn þá er hann hryllilega góður. Hann er bæði topp skotmaður og sér aðra leikmenn vel, sem er hrikalega gott.“
Hvernig líst þér á þessa nýju leikmenn?
„Það vita allir hvað þeir Sigurður Þorsteinsson og Jóhann Árni geta, og þeir gera ekkert nema styrkja liðið. Þeir hafa kannskii ekki verið að spila sinn besta leik það sem af er tímabili en það kemur vonandi, enda þarf tíma til að slípa þetta lið saman.“
Hver verður meiðslapésinn hjá Grindvíkingum í ár?
„Það er bara eitt nafn sem kemur til greina og það er Þorleifur Ólafsson. Hann er búinn að vera takmarkað með á undirbúningstímabilinu og oftast er honum einhversstaðar illt, þó held ég að það sé aðallega bara í hausnum sem honum er illt,“ segir Benóný léttur í bragði.
Nú eru kempur sem hafa átt farsælan ferlil með Suðurnesjaliðunum hættar, menn eins og Gunnar Einarsson, Páll Kristinsson, Friðrik Stefánsson og Brenton Birmingham. Áttu efir að sakna þessara leikmanna?
„Ég á allavega ekki eftir að sakna Gunna Einars, en maður á eftir að sakna þess að sjá Brenton á vellinum en þar er á ferðinni frábær leikmaður og ég vill nú meina að hann sé með hálft gult hjarta.“
Veikleikar Grindvíkinga?
„Klárlega er það inn í teignum en það mun vonandi breytast með komu hins erlenda leikmannsins okkar sem er væntanlegur.“
„Styrkleiki okkar er svo breiddin. Við erum með 10 leikmenn sem eru allir hörku körfuboltamenn. Það hefur ekki gerst oft í Grindavík. Við höfum alltaf haft 6-7 góða leikmenn en núna höfum við 10. Það er kannski bara kominn tími á titil í Grindavík,“ sagði Benóný að lokum.