Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Kominn tími á tapleik hjá FH“
Föstudagur 8. júlí 2005 kl. 11:07

„Kominn tími á tapleik hjá FH“

Keflvíkingar halda í Hafnarfjörðinn í kvöld og leika þar á móti FH-ingum í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn hefst kl. 20:00 á Kaplakrikavelli og ljóst er að Keflvíkingar eiga erfitt verkefni fyrir höndum.

FH-ingar eru taplausir það sem af er leiktíðar með fullt hús stiga eða 27 stig eftir níu umferðir. Þegar liðin áttust við á Keflavíkurvelli í fyrstu umferð sumarsins höfðu FH betur 0-3. Keflavík er í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig.

Víkurfréttir náðu tali af Ingva Rafni Guðmundssyni, leikmanni Keflavíkur, sem fótbrotnaði illa í leik gegn ÍBV fyrr í sumar. Ingvi er allur að braggast en er enn á hækjum.

„Ég tel að við eigum þokkalega möguleika í kvöld og það er kominn tími á tapleik hjá FH. Hins vegar getum við sáttir við unað ef við náum stigi af þeim,“ sagði Ingvi. Aðspurður taldi Ingvi að lykillinn að því að ná stigi gegn FH væri að halda pressu á þeim og gefa þeim ekki tíma til þess að ná upp spili. „Ef við pressum vel á varnarmenn þeirra og lokum sendingarleiðum þá getum við leyft okkur að hafa minni áhyggjur en ella af t.d. Tryggva og Borgvardt,“ sagði Ingvi að lokum.

Staðan í deildinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024