Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Miðvikudagur 16. apríl 2003 kl. 10:25

„Komið grilltímabil hjá mér“ - segir Guðjón Skúlason leikmaður Íslandsmeistara Keflavíkur

Guðjón Skúlason, fyrirliði Keflavíkur, sem leikið hefur yfir 700 leiki fyrir Keflavík hitti einstaklega vel í úrslitakeppninni. Hann var mjög sáttur í leikslok og sagði að þetta hefði verið mjög ljúft. „Þetta var svakalega ljúft. Þetta er einn flottasti titill sem við höfum unnið. Þetta voru einstaklega flottir og góðir leikir. Við vorum með mjög gott lið í ár og unnum þetta sannfærandi“, sagði Guðjón í samtali við Víkurfréttir. Hann sagði að liðið í ár væri ekki síðra en liðið sem hirti alla titlana sem í boði voru 1997. „Ætli liðið í ár sé ekki betra ef eitthvað er. Við vorum með meiri ógn inni í teig en þá og betra varnarlið. Bæði þessi lið gátu þó tekið leiki með stæl og átt hálfleiki þar sem gerðu út um leiki“. Hann tók undir það að það væri einstakt að fara í gegnum undanúrslit og úrslit án þess að tapa. „Þetta var bara einstakt og eitthvað sem við gerðum ekki ráð fyrir áður en úrslitakeppnin hófst. Við fengum hins vegar mikið sjálfstraust eftir fyrsta leikinn gegn Njarðvík og þá var ekki aftur snúið. Lið þurfa að vera helvíti sterk til að fara í gegnum úrslitakeppni 8-1.“
Aðspurður hvað tæki núna við hjá Guðjóni svaraði hann því að nú væri hann kominn í frí. „Núna er komið grilltímabil hjá mér en svo veit maður ekki. Það gerist varla betri endir á ferlinum en þetta og ekki hægt að stíga frá liði með betri árangur“.

Grét gleðitárum í leikslok
Magnús Þór Gunnarsson grét gleðitárum í leikslok þegar honum varð ljóst að hann væri orðinn Íslandsmeistari í fyrsta sinn með meistaraflokki. Hann lék einstaklega vel í úrslitarimmunni og var eins og félagi sinn, Guðjón Skúlason með frábær nýtingu í þriggjastiga skotum. „Þetta var alveg frábært, miklu skemmtilegra en maður bjóst við. Það er ekki á hverjum degi sem maður upplifir slíka tilfinningu og ég grét eins og ég veit ekki hvað í leikslok“, sagði hann í samtali við Víkurfréttir.
Magnús Þór sagði að liðið hefði allan tímann haft trú á því að þeir færu með 3-0 sigur af hólmi í seríunni. „Eftir að hafa tekið Njarðvík 3-0 vorum við staðráðnir í því að taka þetta með trompi í eitt skipti fyrir öll. Mér fannst ég bara spila nokkuð vel og átti jafna leiki sem skiptir máli, ekki 20 stig í einum og ekkert í öðrum“. Hann þakkaði stífum æfingum, frábærum þjálfar og mjög góðum hópi af góðum og skemmtilegum strákum árangur liðsins í vetur. Um framhaldið hafði hann þetta að segja. „Ég ætla að að æfa með landsliðinu og reyna að komast á smáþjóðleikana í júní. Það verður æft held ég alla dagana fram að móti, tekið smá frí við æfingar 7.maí-19.maí, en síðan allt á fullt aftur“.

Sigur liðsheildarinnar
Sigurður Ingimundarson var að stjórna Keflavíkurliðinu til þriðja Íslandsmeistaratitilsins en undir hans stjórn hefur liðið einnig unnið tvo bikarmeistaratitla, fjóra deildarbikartitla og þrjá deildarmeistaratitla. Hann sagði í samtali við Víkurfréttir að tilfinningin við að vinna titil væri alltaf jafn sæt. „Þetta var gríðarlega gaman, það var mikil stemning í hópnum, strákarnir lögðu sig allir fram og þetta er sigur liðsheildarinnar“. Aðspurður um ástæðu þess að liðið óx svo mikið í lokin taldi Sigurður það vera vegna þess að strákarnir í liðinu voru einbeittari og ætluðu sér titilinn sem þeir misstu af í fyrra.
Þrátt fyrir að vera aðeins 36 ára hefur Sigurður nú verið með liðið í sjö ár. Hann sagði að ekki hefði verið ákveðið hvort hann verði með liðið á næsta tímabili en hann er með lausan samning. „Við erum ekkert farnir að spá í þetta. Nú er smá frí enda er umgjörðin og annað í kringum félagið það góð og mikil að það er í góðu lagi að taka sér smá frí“.


Vantaði herslumuninn hjá okkur
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að vissulega hafi verið ákveðin vonbrigði að tapa svona stórt í einvíginu við Keflavík. „Þetta var fínn körfubolti sem var spilaður og enginn leikur vannst kannski mjög stórt en serían var eign Keflavíkur. Mér fannst alltaf vanta herslumuninn til að brjóta þá á bak aftur, en svo þegar maður lítur til baka og skoðar þetta frá ýmsum hliðum þá kemur einfaldlega í ljós að Keflavík var með frábært lið sem engin önnur lið gátu keppt við að þessu sinni“.
Friðrik sagðist þó nokkuð ánægður með árangur vetrarins. „Vissulega langaði okkur í meira og vorum svo sem í dauðafæri til að mynda í Kjörísbikarnum en það tapaðist á síðustu sekúndu. Við misstum marga leikmenn frá okkur á leiðinni og því miður vantaði okkur meiri breidd þegar á hólminn var komið. Deildarmeistaratitill er ágætis árangur þó svo ekkert komi í stað Íslandsmeistaratitilsins“.
Landsliðið fer til Möltu í byrjun júní á Smáþjóðaleikana og mun Friðrik stýra liðinu þar. „Ég er að velja landsliðshópinn þessa dagana og munu æfingar hefjast á næstunni“. Aðspurður hvort hann yrði áfram með Grindavík svaraði Friðrik því játandi.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024