Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Komið að þolmörkum
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. febrúar 2021 kl. 07:22

Komið að þolmörkum

en hrikalega skemmtilegt

Háværar raddir hafa heyrst undanfarið um hversu hátt hlutfall erlendra leikmanna er orðið í íslenskum körfubolta. Lítið beri á íslensku leikmönnum liðanna á kostnað þess. Við leituðum eftir áliti eins af okkar reynslumestu körfuboltamönnum, bæði sem leikmaður og þjálfari, og Teitur Örlygsson lá ekki á sinni skoðun.

„Ég er sammála því að við séum komin nálægt þolmörkum núna, þetta höfrungahlaup verði að stoppa einhversstaðar. Ég þekki stjórnarmenn í deildum út um allt land og þeir eru bara orðnir úrvinda af því að halda þessu gangandi – því allt kostar þetta peninga. Það er áhyggjuefni ef þessir meistaraflokkar sjúga til sín allt fjármagn því það kostar líka að halda úti góðri þjálfun í yngri flokkum og búa til alvöru félag. Félag er auðvitað bara byggt á krökkum sem alast þar upp.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svo á hinn bóginn er deildin ofboðslega sterk núna og þegar ég tek þetta samtal við alla strákana sem eru í atvinnumennsku, og eru ná það langt í körfubolta að þeir eru að spila erlendis, þá segja þeir að svona eigi þetta að vera. Að við eigum frekar að líkjast þessum alvöru deildum í Evrópu og það geri það að verkum að við búum til betri körfuboltamenn. Það er ekkert sem segir mér að það sé brottfall úr sportinu, við erum líka með neðri deildir og við erum að sjá unga stráka blómstra í ár. Ég hef oft séð færri unga leikmenn blómstra í deildinni heldur en núna, þótt það séu svona margir útlendingar. Mér finnst það koma á móti, þetta er einhver gullinn meðalvegur sem við verður að fara en eins og ég segi þá er þetta komið að þolmörkum finnst mér.“

Hrikalega skemmtilegt

„Mér finnst mikið atriði að við höldum áfram að tala deildina upp. Það er engum sem finnst deildin búin að vera leiðinleg í vetur, það finnst öllum þetta búið að vera hrikalega skemmtilegt. Þannig á það að vera.“

– Nú er búið að vera mjög stutt á milli leikdaga, heldurðu að það eigi eftir að draga dilk á eftir sér?

„Það hefur verið það, sem gerir það að verkum líka að þjálfarar verða að dreifa álaginu á leikmenn – þá komum við aftur að því að fleiri fá séns. Lið sem fara í úrslitakeppni eru oft að spila tvo og þrjá leiki á viku, eins og verið er að gera núna, og liðið sem fara lengst eru að spila þannig í heilan mánuð og rúmlega það. Auðvitað tekur þetta toll en núna þegar leikir skipta ekki eins miklu máli fyrir tímabilið þá fá þjálfarar meira tækifæri til að dreifa álaginu.

Sem fyrrverandi leikmaður og þjálfari, þegar ég heyri í kollegum mínum þá heyri ég að þeim finnst þetta ógeðslega gaman – en auðvitað, þeir sem þurfa að spila í þrjátíu mínútur plús verða þreyttir.“

Viljum við meiri gæði, betri leikmenn?

„Ef Íslendingar eru að æfa með einhverju „pöbbaliði“ allan ársins hring, fá enga samkeppni og læra ekki neitt af betri leikmönnum, þá held ég að þeir eigi ekki mikinn möguleika á að verða frábærir leikmenn. Um leið og þeir eru farnir að æfa með einhverjum þremur, fjórum atvinnumönnum sem eru frábærir í körfubolta og þeir þurfa að æfa enn betur, leggja enn harðar að sér – það skilar þeim sem betri í körfubolta. Þetta gengur ekki út á leikinn, þetta gengur út á allar æfingarnar sem eru þrisvar til fjórum sinnum fleiri en þessir leikir.

Þannig að ég er ekki sammála að þetta gangi út á það, við vorum með fjórir fyrir einn fyrir stuttu síðan og þá voru leikmenn í byrjunarliði sem varla myndu sleppa í tíu manna hópa í dag. Deildin er það mikið betri og þannig viljum við hafa það. Landsliðið okkar er búið að fara tvisvar sinnum í lokakeppni Eurocup síðasta áratuginn og ég held að það sé miklu vænlegra að við séum með há markmið ef við ætlum að halda okkur í þeim gæðum.

Svona er þetta í þessum evrópsku deildum og menn töluðu um að nálgast það stig einhvern veginn. Það er voða erfitt að hringla með þetta á hverju ári.

Svo segja menn, sem hafa vit á því sem þeir eru að segja, að það eru reglur um uppalda leikmenn og svoleiðis – það er spurning og kæmi mér ekki á óvart að jafnvel strax á næsta þingi verði sett einhvers konar þak. Þannig að við missum þetta ekki í einhverja þvælu, það vill það enginn. Þess vegna segi ég að þetta sé komið að þolmörkum.“

Körfuboltinn verður sífellt vinsælli

Teitur segir að það sé rosaleg tilfinning núna fyrir hverjum einasta leik. „Fólk segir að menn fari bara á völlinn til að sjá Jóa frænda spila en það er bara kjaftæði. Ég er búinn að vera nógu lengi í þessu og körfuboltinn er bara að verða vinsælli og vinsælli, við sjáum það bara í tölum. Karfan var að skríða yfir handboltann í iðkendafjölda í fyrsta skipti sem sýnir að karfan er í örum vexti.

Þess vegna finnst mér að þessir aðilar sem finni þessu allt til foráttu, þeir þurfa að passa sig og hætta að tala deildina niður. Þetta er ógeðslega gaman og íþróttahúsin verða troðfull um leið og Tóti [Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir] gefur leyfi.“

– Hverjir verða Íslandsmeistarar?

„Úff, ég veit það ekki. Keflavík og Stjarnan eru búin að vera best það sem af er af tímabilinu en við skulum taka Reykjavíkurrisana Val og KR líka alvarlega, þótt að Valur sé ekki einu sinni inni í úrslitakeppninni eins og staðan er í dag. Það eru þessi fjögur lið sem koma til með að vera í baráttunni.

Keflvíkingar komu sterkastir inn í mótið, mættu með fullmannað lið á meðan önnur lið hafa verið í alls kyns rugli og breytingum. Staðan hjá mínum mönnum í Njarðvík er svipuð og maður bjóst við en þeir eru búnir að tapa þremur leikjum sem ég hélt að þeir myndi vinna og á móti vinna þrjá sem ég bjóst við að þeir myndu tapa í staðinn.“

– Þetta sýnir okkur kannski líka hvað deildin er sterk, það geta allir unnið alla.

„Já og það gerir þessi útlendingaregla líka, þú sérð að það eru bara fimm inn á í körfubolta. Það er ekki eins og þegar einn maður kemur inn á í fótboltaliði, einn maður í körfubolta hefur talsvert meira vægi.“

Að lokum sagðist Teitur vona að enginn væri búinn að vera að veðja mikið á körfuboltann. „Þá skiptir engu máli hvort spilakassarnir séu lokaðir, hann er hvort eð er búinn með peninginn!“