„Kombakk“ hjá Keflavík – unnu KR
Keflvíkingar brutu ísinn eftir þrjá tapleiki í röð og unnu KR í Iceland Express deildinni í körfu í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 95-91 en heimamenn leiddu í hálfleik með 8 stigum.
Leikurinn var jafn en heimamenn með tvo nýjaleikmenn í hópnum, Ítalann Valentino Maxwell og nýja leikmanninn, Serbann Lazar Trifunovic, sem kom til liðsins í vikunni, voru drjúgir og skoruðu mest hjá Keflavík. Heimamenn byrjuðu mjög vel og komust í 15-5 og 29-18 í lok fyrsta fjórðungs og í upphafi annars fjórðungs var munurinn orðin átján stig. KR minnkaði muninn fyrir hlé í átta stig, 53-45.
Jafnt var á með liðunum allan seinni hálfleik og Marcus Walker var heimamönnum erfiður og skoraði grimmt og alls 28 stig í leiknum. Hörður Axel Vilhjálmsson stýrði liði Keflavíkur og gerði það vel. KR-ingar sóttu hart að heimamönnum í lokin og jöfnuðu þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Þá sagði Hörður Axel hingað og ekki lengra og skoraði tvist og aftur þrist af vítalínunni eftir brot KR-ings fyrir utan teig.
Það var fjör í blálokin og þeir röndóttu skömmuðu dómarana en það dugði ekki og Keflvíkingar fögnuðu góðum sigri eftir taphrinu.
Serbinn Lazar er frábær sending til Keflavíkur og lofar rúmlega góðu og Valentino sýndi að það var rétt hjá þjálfarateymi Keflavíkur að bíða eftir honum. Lazar skoraði 26 stig, Valentino 21 og Hörður 18, Sigurður 10 og Gunnar 8.
Gunnar Einarsson sem hefur verið einn af burðarásum liðsins í undanförnum leikjum ásamt Sigurði Gunnari skoruðu ekki eins mikið og í undanförnum leikjum þar sem fleiri leikmenn voru komnir til að gera hluti en þeir voru traustir og sömuleiðis Jón Norðdal og Þröstur Jóhanns. Keflavíkurliðið er til alls líklegt með þennan liðsstyrk sem kom til viðbótar í kvöld.
Serbinn Lazar var besti maður Keflavíkur í sínum fyrsta leik með liðinu.
Sigurður Gunnar var drjúgur í Keflavíkurvörninni og skoraði tíu stig.
Valentino sýndi flott tilþrif í kvöld. Að neðan má sjá Hörð Axel skora tvö af 18 stigum sínum.