Komast Keflvíkingar í undanúrslit í kvöld?
Þurfum að taka á þeim frá fyrstu mínútu -segir Gunnar Einarsson
Þriðji leikur Keflvavíkur og Hauka fer fram að Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Keflvíkingar hafa unnið tvo fyrstu leikina og geta því tryggt sér farseðilinn í undanúrslitin með sigri.
Haukaliðið hefur haft yfirhöndina stærstan part beggja leikja þótt að forystan hafi aldrei verið nein ósköp en Keflvíkingar hafa sýnt þrautseigju og toppað á réttum tíma og unnið báða leikina á spennandi lokamínútum.
Keflvíkingar munu að öllum líkindum leika án Guðmundar Jónssonar sem að glímir við bakmeiðsli og mun mæða mikið á bakvarðasveit Keflvíkinga í hans fjarveru þar sem að Guðmundur leikur að meðaltali í rúmar 27 mínútur í leik.
Gunnar Einarsson, einn reyndasti leikmaður Keflavíkur, sagði í stuttu spjalli við Víkurfréttir að mikilvægi þess að byrja leikinn vel og hleypa ungu, spræku Haukaliði ekki af stað gæti vegið þungt í kvöld. Keflvíkingar eigi von á Haukum trítilóðum inn í leik kvöldsins enda ekkert nema sigur sem framlengir Íslandsmótið hjá Hafnfirðingum. Gunnar talaði einnig um mikilvægi þess að ráðast að körfunni snemma leiks til að opna fyrir skyttur liðsins, en sóknarleikur Keflvíkinga hefur verið talsvert vandamál í vetur.
Það má því búast við alvöru leik á Ásvöllum í kvöld og eru stuðningsmenn hvattir til að mæta og styðja sína menn áfram.
Leikurinn hefst kl. 19:15.