Knattspyrnumenn komnir í úrslit á Alþjóðaleikum Special Olympics
Suðurnesjakapparnir Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Markússon hafa staðið sig með prýði með knattspyrnuliði Íslands á Alþjóðaleikum Special Olympics.
Íslensku strákarnir hafa tryggt sér sæti í úrslitaleik 7 manna fótboltans í B-riðli á leikunum sem nú fara fram í Aþenu í Grikklandi.
Ísland mætti Austurríkismönnum í gær og hafði betur 4-1. Íslenska liðið hefur því unnið alla leiki sína á mótinu til þessa.
Í dag mætast Ísland og Svartfjallaland í riðlakeppninni en úrslitin í þeim leik skipta ekki máli upp á framhaldið. Liðin mætast svo aftur á laugardag í hreinum úrslitaleik um gullið í B-riðli.
B-riðill er næststerkasti riðill mótsins en Ísland lék fjóra leiki í flokkun þar sem verið var að meta styrkleika liðsins og þeir unnust allir. 1-0 sigur gegn Hollendingum, 3-1 sigur gegn Þjóðverjum, 3-0 sigur gegn Sviss og loks 1-0 sigur gegn Lúxemborg.
Á myndinni má sjá Guðmund Markússon annan frá hægri í efri röð og í neðri röð er Sigurður Guðmundsson lengst til vinstri.