Knattspyrnulið á Suðurnesjum njóta góðs af góðum rekstri KSÍ
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað á stjórnarfundi 15. janúar sl. að greiða tæpar 10 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ, á sama hátt og gert var á síðasta ári, sem gjaldfærist á starfsárið 2002. Þetta kemur fram á heimasíðu knattspyrnusambandsins, ksi.is. Endurskoðaður ársreikningur KSÍ liggur ekki fyrir, en ljóst er að rekstur sambandsins gekk vel á síðasta starfsári. Fimm félög af Suðurnesjum njóta góðs af þessu og fá hvert um sig um 200.000 kr. í framlag.Alls munu 57 aðildarfélög KSÍ sem sendu lið til keppni í mót á vegum KSÍ í yngri aldursflokkum utanhúss 2002 fá framlag frá sambandinu. Félög sem sendu lið til keppni í yngri flokkum beggja kynja fá 200 þúsund kr. hvert, en félög sem sendu aðeins lið til keppni í yngri flokkum annars hvors kynsins 125 þúsund kr. hvert. Þá fá félög sem voru aðilar að einu samvinnufélagi ("skástriksfélagi") 62.500 kr. hvert. Samkvæmt þessu fær 41 félag 200 þúsund og þar eru Keflavík, Grindavík, Víðir og Reynir, 11 félög 125 þúsund kr. og þar er Njarðvík og 5 félög 62.500 kr., alls 9.887.500 kr.
Mynd: Úr leik Keflavíkur og Grindavíkur sumarið 2001!
Mynd: Úr leik Keflavíkur og Grindavíkur sumarið 2001!