Knattspyrna: Tímamótaleikur hjá Guðjóni, Jóhanni og Guðmundi
Leikur Keflavíkur og Fylkis var tímamótaleikur hjá þeim Guðjóni Antoníussyni, Jóhanni Guðmundssyni og Guðmundi Steinarssyni.
Garðbúar með leikjamet í Keflavík
Leikurinn var tímamótaleikur hjá Garðbúunum í liði Keflavíkur, þeim Guðjóni og Jóhanni . Guðjón lék þá sinn 100. deildarleik fyrir Keflavík. Guðjón hefur skorað sjö mörk í leikjunum hundrað en 17 leikjanna voru í B-deildinni og 83 í efstu deild. Guðjón er búinn að skora 4 mörk í sumar í deild og bikar. Hann er næstmarkahæsti leikmaður Keflavíkur sem hlýtur að teljast ágætisárangur hjá bakverði.
Leikurinn var 50. deildarleikur Jóhanns en sá 49. var gegn ÍA 29. september árið 1997, 11 árum fyrr. Jóhann hefur skorað 13 mörk fyrir Keflavík í leikjunum 50.
Vantar 15 mörk til að slá markamet föður síns
Guðmundur Steinarsson, fyrirliði, skoraði tvö mörk gegn Fylki en seinna markið var 57. mark Guðmundar fyrir Keflavík í efstu deild. Hann er orðinn jafn Óla Þór Magnússyni í öðru sæti yfir markahæstu leikmenn félagsins í efstu deild. Faðir Guðmundar, Steinar Jóhannsson trónir á toppnum með 72 mörk, drengurinn á ennþá eftir 15 mörk í þann gamla.
Guðmundur er kominn með 161 leik í efstu deild og er orðinn 6. leikjahæsti leikmaður Keflavíkur. Fyrir ofan hann eru Sigurður Björgvinsson, með 214 leiki, Þorsteinn Bjarnason 180 leikir, Gunnar Oddsson og Óli Þór Magnússon báðir með 177 leiki og Gestur Gylfason með 172 leiki.
Þórarinn skríður upp markaskoraralistann
Þórarinn Kristjánsson skríður upp markaskoraralistann. Seinna mark Þórarins gegn Fram á dögunum var 50. mark hans í efstu deild en tvö markanna skoraði hann fyrir Þrótt. Þórarinn er því kominn með 48 mörk fyrir Keflavík, aðeins einu marki á eftir Ragnari heitnum Margeirssyni sem er í 4. sæti yfir þá sem hafa skorað flest mörk fyrir Keflavík í efstu deild.