Klappstýrur kæta Keflvíkinga
Suðurnesjamenn sem ætla sér á leik Keflvíkinga og Snæfells munu heldur betur fá peninganna virði þar sem að hálfleiks „showið“ verður alls ekki á verri endanum í kvöld í Sláturhúsinu. Eins og flestum Suðurnesjamönnum er kunnugt voru klappstýrur Dallas Cowboys að mála bæinn rauðan fyrir um tveimur vikum í Reykjanesbæ. Klappstýrur virðast vera á ferð og flugi á herstöðum Bandaríkjanna því nú eru klappstýrur NBA körfuknattleikliðsins Houston Rockets staddar á Íslandi. Stjórn Keflavíkur í körfuknattleik hefur staðfest það að klappstýrur NBA liðsins munu vera með „show“ í hálfleik á leik Keflvíkinga og Snæfells.
Hermann Helgason, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur sagði þetta í raun bara vera heppni að fá stúlkurnar í kvöld þar sem einn í stjórn Keflavíkur vinni fyrir varnarliðið og hafi „rekist“ á skvísurnar og málið hafi þróast þannig að þær verði með „show“ í kvöld, „Þetta gerðist mjög hratt, þetta var staðfest í hádeginu í dag af umboðsmanni klappstýranna og við erum mjög ánægðir með að fá léttklæddar skvísur í hálfleik og vonandi að þær ná upp stemmingu eins og myndast oft á NBA leikjum“ sagði Hermann um klappstýrurnar.
Klappstýrurnar munu kynna sér aðstæður í íþróttahúsi Keflavíkur klukkan 16:00 í dag og í kjölfarið halda stutta æfingu í íþróttahúsinu.
Mynd: Klappstýrur NBA liðsins Houston Rockets.