Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keypti Rallycross-bíl fyrir fermingarpeningana
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 2. júní 2024 kl. 06:07

Keypti Rallycross-bíl fyrir fermingarpeningana

Sigurður Almar Guðnason er í níunda bekk Sandgerðisskóla en Sigurður er ekkert venjulegur fjórtán ára unglingur. Hann tók þátt í sinni fyrstu Rallycross-keppni um síðustu helgi og keppti þá á eigin bíl sem hann keypti fyrir fermingarpeningana. Sigurði gekk býsna vel í frumraun sinni og hann stefnir langt í heimi akstursíþróttanna.

Fjórtán ára kappaksturskappi

Þeir eru eflaust fáir jafnaldrar Sigurðar sem geta státað af því að eiga sinn eigin keppnisbíl en hann hefur óbilandi áhuga á aksturs-íþróttum enda kippir honum í kynið en hann er ekki sá eini sem stundar bílasportið í fjölskyldunni. „Ég hef mjög mikinn áhuga á Rally, tveir frændur mínir keppa í því, Hilmar Pétursson og Almar Viktor Þórólfsson, og svo er mamma [Vigdís Pála Þórólfsdóttir] aðstoðarökumaður hjá Almari.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þess má geta að Vigdís og Almar eru systkini og voru valin akstursíþróttakarl og akstursíþróttakona Suðurnesja á síðasta ári svo Sigurður á ekki langt að sækja bíladelluna.

Hvernig fara fjórtán ára krakkar að því að æfa sig í svona akstursíþrótt eins og Rallycross? Þú ert ekki einu sinni kominn með bílpróf.

„Nei, ég er ekki með bílpróf en maður þarf að æfa á lokaðri braut og vera með allan öryggisbúnað,“ segir Siggi sem keppir undir merkjum Akstursíþróttafélags Suðurnesja [AÍFS] en æfir hjá Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar þar sem það er engin lokuð braut á Suðurnesjum.

Þú varst að keppa í fyrsta sinn í Rallycross um síðustu helgi, hvernig gekk?

„Það gekk bara mjög vel og ég bætti mig stöðugt. Ég fékk að keppa í úrslitariðlinum en við höfðum ekki gert ráð fyrir því,“ segir kappinn augljóslega sáttur við árangurinn.

Og þú kepptir á bílnum sem þú keyptir fyrir fermingarpeningana. Hvernig bíll er það?

„Ég keypti mér Toyota Aygo sem er fínn byrjendabíll. Hann reyndist bara vel og slapp heill í gegnum fyrstu keppnina, fékk eina smá rispu en það var allt og sumt. Seinna stefni ég á að keppa í Rally og þá verð ég vonandi á Corollu,“ segir hann og krossleggur fingur en mamma hans hlær að hugmyndinni enda Siggi að láta sig dreyma um keppnisbíl Hilmars frænda sem er 2.000 cc Toyota Corolla með alls kyns aukabúnaði.

Sigurður notaði fermingarpeningana til að fjárfesta í þessum gæðingi.

Hvað segja vinirnir um þetta áhugamál þitt?

„Þeir eru bara mjög spenntir að koma og horfa á. Sumir eru meira að segja búnir að spyrja pabba sína hvort þeir geti byrjað í Rallycross.“

Bílar frændanna hlið við hlið, fjær er 2.000cc Corollan hans Hilmars sem Siggi lætur sig dreyma um að keppa á.

Stundar óhefðbundnar íþróttir

Hefur þú bara áhuga á bílaíþróttum?

„Nei, ég hef líka æft amerískan fótbolta í þrjú ár,“ segir Siggi. „Mér finnst það líka rosalega gaman. Fyrst var ég að æfa í Grindavík en núna eru æfingarnar hjá ÍR í Reykjavík. Ég hef fengið að keppa með aðalliðinu og þá er keppt í fullum búnaði, með hjálm og brynju, en þegar maður er svona ungur eins og ég er, er spilaður svokallaður ‘flag ball’,“ segir Siggi en þar eru leikmenn ekki í hlífum heldur eru borðar hengdir í buxnastrenginn og ef andstæðingurinn nær borðanum virkar það eins og tækling. Þetta er gert til að koma í veg fyrir meiðsli hjá ungum iðkendum.“

Siggi er vígalegur að sjá kominn í allar græjur sem þarf til að spila amerískan fótbolta.

Ertu nokkuð hættur í ameríska fótboltanum þótt þú sért kominn í Rallycross?

„Nei, alls ekki. Þetta fer ágætlega saman, stunda bílasport á sumrin og ameríska fótboltann á veturna,“ sagði Siggi að lokum en hann bíður spenntur eftir næstu keppni í Rallycross sem verður 22. júní í Hafnarfirði.

Hver er munurinn á Rally og Rallycross?

Munurinn er sá að Rallycross er keppt í lokaðri braut þar sem bílarnir keyra í hringi, svipað kappakstri. Keppni í Rally fer hins vegar fram úti á þjóðvegum sem þá er búið að loka og keppendur eru ekki ræstir út á sama tíma.

Á vef Aksturíþróttasambands Íslands segir: „Rallycross er vinsæl hjá byrjendum í akstursíþróttum, þar sem hægt er að komast af með ódýr keppnistæki.“