Kekic með þrennu í fyrsta sigri Grindvíkinga
Sinisa Kekic hélt heldur betur upp á það að vera færður í framlínu Grindavíkurliðsins gegn Fram í dag. Grindavík sigraði í hörku leik 3-2 og sá Kekic um að skora öll mörk liðsins. Kekic sem hefur leikið sem varnaramaður í Grindavík frá því í fyrra var settur í sína gömlu stöðu á ný vegna skorts á sóknarmönnum þar á bæ og var hann ekki lengi að stimpla sig inn. Leikurinn var heldur betur fjörugur en strax á 10. mínútu fengu heimamenn í Grindavík vítaspyrnu. Ólafur Örn Bjarnason klikkaði hins vegar úr henni. Framarar komust yfir á 29. mínútu en Sinisa Kekic jafnaði leikinn fyrir Grindavík á 43. mínútu. Kekic var svo aftur á ferð á 75. og 79. mínútu og gulltryggði Grindvíkingum sigurinn. Framarar náðu að klóra í bakkann með síðustu spyrnu leiksins en það dugði þó skammt.