Kekic bestur í sumar
Sinisa Valdemar Kekic var valinn leikmaður ársins hjá Grindvíkingum á árlegu lokahófi knattspyrnudeildarinnar í Festi á laugardagskvöld. Samkvæmt heimasíðu félagsins brutust mikil fagnaðarlæti út er úrslitin voru tilkynnt, en fjöldi manns var samankominn á hátíðinni. Kekic var sem fyrr kjölfestan í liði Grindavíkur í sumar og virðist ekkert vera að gefa eftir þótt farið sé að síga á seinni hlutann á ferlinum.
Óskar Örn Hauksson var valinn efnilegasti leikmaðurinn. Grétar Hjartarson heiðraður fyrir árangur sinn í sumar, en hann hampaði silfurskó KSÍ sem annar markahæsti maður úrvalsdeildar með ellefu mörk.
Fyrr um daginn hafði farið fram viðureign Grindavíkurliðsins í ár og liðs samsett af leikmönnum liðsins 1989 til 1994. Tilefnið var að 10 ár eru síðan Grindavík komst fyrst upp í úrvalsdeild. Yngri leikmenn höfðu sigur eftir hörkuleik, 4-3, en í liði „Gömlu mannanna“ voru kempur eins og Grétar Einarsson, Bjarni Ólason og margir fleiri.