Keflvískir landsliðsmarkmenn komnir á kaf í golfið
Það sýndu skemmtilega takta á Hólmsvelli í Leiru tveir fyrrverandi landsliðsmarkverðir í knattspyrnu, Keflvíkingarnir og Þorsteinarnir, Ólafsson og Bjarnason. Þeir hafa eins og margir knattspyrnumenn tekið ástfóstri við golfíþróttina eftir knattspyrnuferil.
Þorsteinarnir starfa á sama vinnustað, Olís og þeir hafa verið að sækja í sig veðrið í golfinu undanfarin ár. „Ég hef verið að fikta við þetta í nokkur ár en meira nú síðustu árin,“ sagði Þorsteinn Bjarnason sem tók við markvarðastöðunni í Keflavíkurliðinu af Þorsteini Ólafssyni. Hinn Steininn, Ólafsson var markvörður hjá gullaldarliði bítlabæjarins sem vann Íslandsmeistaratitilinn þrisvar á fimm ára tímabili, 1969-73. „Ég byrjaði fyrir fjórum árum og áhuginn er alltaf að aukast,“ sagði Ólafsson með sinni alkunnu hógværð í blíðunni í Leirunni sl. sunnudag en með þeim var Gísli Eyjólfsson sem var með þeim í fótboltanum í „gamla daga“ og sá fjórði í hollinu var danskur vinur þeirra.
Þessir kappar berjast nú allir við það að lækka forgjöfina en þeir voru ánægðir með Hólmsvöll en þar fer fram nú stærsta golfmót ársins sem hefst næsta fimmtudag þegar allir bestu kylfingar landsins mæta til leiks á Íslandsmótinu í höggleik.
Þorsteinn Ólafsson slær inn á 18. flötina.
...og svo Bjarnason sem er kominn með 25 í forgjöf. Neðst má sjá þá á 18. flötinni.