Keflvísk Taekwondo ungmenni stóðu sig vel í Danmörku
Keflvíkingar stóðu sig vel í sterkum æfingabúðum í Danmörku á dögunum. Dagana 4. - 9. ágúst sl. fóru fjórir Keflvíkingar og meðlimir í Íslenska taekwondo landsliðinu á æfingabúðir hjá einum besta taekwondo þjálfara Evrópu, Bjarne Johansen, sem um árabil hefur þjálfað afreksfólk í fremstu röð. Æfingabúðirnar fóru fram í Aarhus í Danmörku.
Þeir Andri Sævar, Ágúst Kristinn, Daníel Arnar og Eyþór þóttu standa sig gríðarlega vel, bæði í keppnisbardögum og æfingum. Þeir fengu viðurkenningu í lok æfingabúðana fyrir framúrskarandi árangur. Ágúst Kristinn fékk svo auka viðurkenningu og fær fríar æfingabúðir á næsta ári.
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þessa keppendur okkar að fara á æfingabúðir í þessum styrkleika til þess að sækja sér reynslu og svo að þeir nái að vera á heimsmælikvarða og að þeir geti undirbúið sig sem best fyrir komandi keppnistímabil,“ segir í tilkynningu frá Taekwondodeild Keflavíkur.
Næst á dagskrá hjá þessum keppendum er svo keppni á gríðarlega stóru og sterku móti sem haldið verður í Varsjá í Póllandi í september nk., en það mun einnig keppa Kristmundur Gíslason, einn af okkar sterkustu keppendum undanfarin ár.
Veturinn hjá Taekwondodeild Keflavíkur verður spennandi og margt framundan hjá keppendum, bæði innan lands og utan.