Keflvíkingurinn Samúel Kári stefnir hátt í heimi atvinnumennskunnar
Fjölskyldustemning hjá Íslendingaliðinu Reading
Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson hefur vakið nokkra athygli fyrir vasklega framgöngu með enska B-deildar liðinu Reading á Englandi, en þar leikur hann með varaliði félagsins. Samúel var einungis rúmlega 16 ára þegar hann samdi við enska liðið eftir að hafa staðið sig vel með U-17 landsliði Íslands. Mörg lið í Evrópu sóttust eftir starfkröftum Samúels, en þeirra á meðal voru Celtic í Skotlandi og Heerenveen í Hollandi. Samúel segist hafa valið Reading sökum þess að margir Íslendingar hafa verið á mála hjá félaginu og bera því vel söguna. Meðal þeirra Íslendinga sem hafa leikið með félaginu eru Brynjar Björn Gunnarsson, Ívar Ingimarsson og Gylfi Sigurðsson. Sá síðastnefndi er mikil goðsögn hjá liðinu að sögn Samúels, en vel er talað um alla Íslendingana innan félagsins.
Búinn að bæta sig mikið
„Reading er fjölskylduklúbbur og ég var boðinn velkominn hérna strax og ég kom til reynslu. Okkur fjölskyldunni leist strax vel á aðstæður hérna,“ segir Samúel en hann er búsettur í Reading ásamt móður sinni, Sólveigu Guðmundsdóttur. Hann er 18 ára og hefur aðlagast lífinu vel á Englandi. Hann stefnir nú á að búa með kærustunni sinni úti, en hún er nú búsett á Íslandi.
„Á fyrsta árinu mínu gekk mér í raun frábærlega, en það var líklega mitt besta ár í boltanum til þessa. Núna hefur mér gengið vel en hef verið að glíma við smávægileg meiðsli,“ segir Samúel sem hefur verið í tæp tvö ár hjá félaginu. Hann hefur nokkuð stöðugt verið að bæta leik sinn. Bæði er hann orðinn líkamlega sterkari og fljótari, en auk þess hefur hann verið að skora meira af mörkum en hann gerði áður. Það kemur þó líklega til vegna þess að hann leikur nánast alltaf sem miðjumaður nú orðið. Í yngri flokkum lék Samúel mikið í vörninni en það er óhætt að segja að hann sé þúsundþjalasmiður þegar kemur að fótbolta, enda getur hann leyst nánast allar stöður á vellinum, nema kannski þá markvarðarstöðuna, þó er ekki hægt að útiloka það. „Ég tel að ég hafi gjörbreyst frá því að ég kom hingað út og er bæði orðinn sterkari og fljótari. Ég myndi segja að ég sé búinn að bæta mig talsvert enda aðstæður allt aðrar en hjá Keflavík,“ segir miðjumaðurinn efnilegi.
Samúel segir það í raun ekki hafa komið sér á óvart hvað varðar gæði fótboltans í Englandi. Þar er samkeppnin mun meiri en hérlendis og leikurinn á öðru plani ef svo má segja. „Þetta snýst meira um andlegu hliðina og að aðlagast. Það líkar ekkert öllum Englendingum vel þegar leikmenn eru keyptir frá öðrum löndum til þess að berjast um þeirra stöður.“ Samúel segir að hann fái mikinn stuðning frá fjölskyldunni sem geri honum kleift að einbeita sér að fótboltanum af fullum krafti.
Reykjaneshöllin annað heimili
Samúel er gríðarlega metnaðarfullur. Þeir sem til hans þekkja segja að hann hafi fórnað miklu á sínum yngri árum til þess eins að auka möguleika sína á því að ná langt í fótboltanum. Hann hefur alltaf æft mikið aukalega, en það geta flestir íþróttamenn í fremstu röð vitnað um að skili settum markmiðum. „Þeir segja að þetta séu 10% hæfileikar og 90% vinna sem skila þér árangri í þessu sem og mörgu öðru,“ segir Samúel.
„Ég hef alltaf stefnt að þessu. Ég var alltaf að leika mér í fótbolta en í 5. flokki fann ég að þetta var það sem mig langaði til að gera. Þá byrjaði ég að huga að því hvað ég gæti gert til þess að komast sem lengst,“ bætir hann við. Sem unglingur þá fór hann reglulega í jóga og sund fyrir skóla og að honum loknum þá æfði hann fótbolta að jafnaði tvisvar á dag. „Reykjaneshöllin var eins og mitt annað heimili. Ég var eiginlega bara með sér samning við Bebbý vinkonu mína og reyndi að fara þangað eins oft og ég gat. Á hvaða tímum sem voru lausir.“
Tók fótboltann fram yfir böllin
Þegar félagarnir voru að fara á ball þá hugsaði Samúel um fótboltann frekar. „Ég var þá kannski spurður að því hvort ég væri klikkaður, ég þyrfti að eiga mitt félagslíf líka. Ég valdi þetta og tók þessa ákvörðun. Þetta eru árin sem þú byggir þig upp. Þú byrjar ekki 19 ára að stefna að því að verða atvinnumaður nema þú sért eitthvað undrabarn,“ segir hann. Nú sem atvinnumaður heldur Samúel áfram að æfa af mikilli eljusemi. Eftir æfingar dvelur hann jafnvel lengur en félagar á æfingasvæðinu og vinnur í smáatriðum sem geta gert hann að betri leikmanni. Hvort sem það eru sendingar, tækni, móttökur eða aukaspyrnur. Á dögunum vakti einmitt athygli glæsilegt aukaspyrnumark fra kappanum, en þá söng boltinn í netinu af 35 metra færi í æfingaleik. Einnig vakti athygli myndband þar sem Samúel kastaði boltanum úr innkasti alla leið á markteig, svo úr varð mark að lokum. Eftir slík tilþrif þá poppa svona myndbönd upp hjá fjölmiðlum og á samskiptamiðlunum. „Ég reyni að horfa framhjá þessu tali en annars er gott að heyra þegar fólk hrósar manni fyrir mörk og annað slíkt,“ segir hann hógvær. Samúel segist vera lítið fyrir að tala við fjölmiðla og reynir að halda sínu einkalífi út af fyrir sig. „Sumir ungir leikmenn í mínum sporum hafa átt erfitt með að einbeita sér að fótboltanum og þurfa útrás á annan hátt,“ en oft heyrast sögur af því að ungir leikmenn eigi erfitt með að takast á við frægð og annað sem fylgir fótboltanum. Samúel vill að sjálfsögðu forðast allt slíkt og einbeita sér af því að ná langt.
„Ég var þá kannski spurður að því hvort ég væri klikkaður, ég þyrfti að eiga mitt félagslíf líka. Ég valdi þetta og tók þessa ákvörðun. Þetta eru árin sem þú byggir þig upp. Þú byrjar ekki 19 ára að stefna að því að verða atvinnumaður nema þú sért eitthvað undrabarn“
Hverjir eru möguleikar þínir á að leika með aðalliðinu?
„Ég tel þá í raun nokkuð mikla. Ég hef verið að æfa aðeins með aðalliðinu og leikið gegn þeim með varaliðinu, þar sem við stóðum okkur vel. Þeir hafa sagt mér að ég eigi talsverða möguleika á að komast i aðalliðið en það gerist vonandi á næsta ári. Það tekur sinn tíma en ég er ennþá yngstur í varaliðinu,“ segir Samúel. Nýlega var þjálfara Reading sagt upp störfum og því er aldrei að vita nema hann fái tækifæri með tilkomu nýs stjóra. „Mér er sagt að hér eigi ég framtíð en fyrst og fremst er það undir mér komið,“ bætir Samúel við. Margir halda kannski að ungir leikmenn sem eru á mála hjá erlendum liðum séu á grænni grein. Samúel segir það af og frá.
„Það er fullt af fólki hérna úti sem heldur að maður sé einhver stjarna, þó svo að maður sé langt því frá. Heima á Íslandi hefur maður fengið aðeins meiri athygli. Persónulega finnst mér ég ekki hafa gert neitt fyrr en ég er kominn í aðalliðið. Ég hef auðvitað staðið mig vel í yngri flokkum og allt það. Þegar ég kemst vonandi lengra á mínum ferli þá mun ég skilja að fólk veiti þessu athygli. Fólk kannski heldur að þetta sé allt komið hjá mér, en það er alls ekki þannig.“ Samúel á sér háleit markmið og dreymir eins og flesta unga knattspyrnumenn um að leika fyrir stærstu félög heims. Fyrir það fyrsta ætlar hann sér að komast í lið Reading en stefnan er tekin hærra. „Ég hætti ekki fyrr en ég er kominn á toppinn. Maður gefst ekki upp á því markmiði,“ segir hann ákveðinn.
Gott uppeldi hjá Keflavík
Samúel fékk gott fótboltauppeldi hjá Keflavík og hann ber þar mörgum vel söguna sem hann lítur á sem fyrirmyndir. „Ég var að æfa með Jóhanni Birni, Gumma Steinars, Halla Gumm og Ómari Jóhanns. Ég held að margir vanmeti hreinlega þessa menn. Þetta eru allt frábærir einstaklingar sem ég lít mikið upp til og hef lært mikið af.“ Hann á þjálfaranum Zoran Ljubicic mikið að þakka en hann þjálfaði hann um árabil. „Sá maður sem ég lít mest upp til er Zoran en hann hefur verið minn besti félagi síðan ég byrjaði í þessu. Hann er frábær þjálfari sem ég held að fleiri ættu að hlusta á,“ segir Samúel en hann tekur fram að menn eins og Gunnar Már Másson, Haukur Ben og Gunnar Magnús Jónsson hafi reynst honum einstaklega vel hjá félaginu.
Gylfi er góð fyrirmynd
Í borginni Reading búa um 160 þúsund manns. Samúel segir borgina vera mjög vinalega og kann hann vel við sig þarna svona skammt frá London. Eins og áður segir er Gylfi Sigurðsson afar þekktur meðal stuðningsmanna liðsins, en hann sló í gegn hjá klúbbnum ungur að árum. Samúel segist reyna að forðast samlíkingar við Gylfa sem hann lítur þó á sem mikla fyrirmynd. „Ég vil bara búa mér minn eigin leikstíl, en ekki að ég sé borinn saman við einhvern frábæran leikmann sem er búinn að standa sig eins og stjarna. Ég vil ekkert endilega láta bera mig saman við hann, ég vil einbeita mér að mínum leik og stefni á að vera miklu betri,“ segir Samúel. Hann segir að Gylfi sé oft nefndur sem fyrirmynd innan félagsins.
Um þessar mundir er útlit fyrir að Samúel verði boðinn nýr samningur hjá félaginu. Samúel segir að samningaviðræður séu í gangi en liðið vill halda honum áfram. Þó er það ferli í nokkuð lausu lofti eftir að stjóranum var sagt upp. Það verður því forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála hjá Keflvíkingnum efnilega hjá Reading. Að lokum spyr blaðamaður hvað þurfi til að ná markmiðum sínum. „Æfa sig endalaust og ekki gefast upp. Hausinn þarf að vera rétt skrúfaður á og ekki halda að þetta sé létt, þetta er löng og erfið leið. Maður verður samt að hafa gaman að þessu þrátt fyrir allt.·“
Zoran Ljubicic um Samúel Kára:
Hefur alla burði til að ná langt
„Samúel er fyrst og fremst frábær karakter. Það er ekkert skrýtið að hann sé þarna hjá Reading enda hefur hann alltaf lagt sig 100% fram á öllum æfingum. Hann er flottur skallamaður, flinkur með boltann og góður spyrnumaður. Hann er gríðarlega góður leikmaður og ég tel að hann eigi eftir að ná langt. Ég hef fulla trú á því. Hann hefur alla burði og er ákveðinn í að ná langt,“ segir þjálfarinn hjá Keflvíkingum.
„Það sem skiptir máli er að fórna öllu ef þú vilt ná langt. Það er þó ekkert víst að þú verðir topp leikmaður, til þess þarf allt að smella saman. Ég tel að hann sé lang efnilegasti leikmaður landsins í sínum árgangi. Hann var aldrei að tala mikið um árangur sinn en lét alltaf verkin tala á vellinum“.
Zoran segir að Samúel búi yfir miklum leikskilningi og að hann hugsi miklu hraðar en aðrir á vellinum. Hann hafi líka alltaf verið tilbúinn að taka við gagnrýni, sem er góður kostur að mati þjálfarans.
„Það er gríðarlegur kostur fyrir þjálfara að hafa svona fjölhæfa leikmenn eins og Samúel. Hann klárar bara þá stöðu sem þú setur hann í, ekkert vandamál. Ég er gríðarlega stoltur af því að hafa svona leikmann hjá mér af því að þeir gera okkur að betri þjáfurum. Hann getur verið fyrirmynd fyrir marga unga leikmenn enda mjög vinnusamur,“ segir Zoran.
Strákurinn getur kastað boltanum eins og sjá má hér í myndbandinu.
Samúel Kári fagnaði bikarmeistaratitli með undir 21 árs liði Reading í fyrra. Sigur vannst gegn liði Manchester City 2-0, en fyrri leik liðanna lauk með 3-2 sigri City. Því höfðu Reading 4-3 sigur samtals.
Samúel ásamt Karen Lind systur sinni í Reading.
Samúel ásamt Elísu Björk Jóhannsdóttur kærustu sinni á leik í enska boltanum.