Keflvíkingum spáð titlinum
Karfan.is, er sú vefsíða sem körfuboltaaðdáendur virða hvað mest og lætur hún sér fátt óviðkomandi þegar kemur að körfubolta. Síðan birti í dag spá fyrir úrvalsdeild kvenna 2011-2012 og fékk boltaspekinga víðsvegar um landið til að setja niður sína spá og setja í efsta sæti það lið sem þeir teldu að yrðu Íslandsmeistarar. Útkoman varð sú að Keflavík kom út á toppnum með 133 stig og því spáð Íslandsmeistaratitlinum og Fjölniskonum var spáð falli.
Keflavík fékk 133 stig í atkvæðagreiðslunni en tæpara gat það nú vart staðið þar sem KR var spáð 2. sætinu með 132 stig. Fjölnir rak lestina með 43 stig en samkvæmt spá Karfan.is í ár verða það Keflavík, KR, Haukar og Valur sem skipa munu úrslitakeppnina en eftir síðasta Körfuknattleiksþing KKÍ eru aðeins fjögur lið sem komast í úrslitakeppnina. Í fyrirkomulagi síðasta tímabils voru sex lið sem komust í úrslitakeppni, tvö efstu sátu hjá en liðin í sætum 3-6 léku fyrstu umferð áður en blásið var til undanúrslita.
Spá Karfan.is í Iceland Express deild kvenna 2011-2012:
1. sæti Keflavík - 133
2. sæti KR - 132
3. sæti Haukar - 114
4. sæti Valur - 92
5. sæti Njarðvík - 87
6. sæti Hamar - 70
7. sæti Snæfell - 68
8. sæti Fjölnir - 43
Í umsögn um Suðurnesjaliðin segir m.a.:
5. sæti – Njarðvík
Silfurlið síðasta tímabils er sett í fimmta sæti þetta tímabilið. Njarðvíkingar þurfa veglegt framlag frá Ólöfu Helgu Pálsdóttur í vetur en í sumar barst þeim liðsauki, tvær stoðsendingar úr Grindavík í þeim Petrúnellu Skúladóttur og Hörpu Hallgrímsdóttur og svo gekk Salbjörg Sævarsdóttir til liðs við félagið frá Laugdælum. Njarðvíkingar hafa á að skipa tiltölulega ungu liði en Sverrir Þór Sverrisson stýrði hópnum gegn öllum spám og inn í úrslit Íslandsmótsins þar sem liðið vann til silfurverðlauna á síðustu leiktíð.
1. sæti – Keflavík
Ríkjandi Íslandsmeisturum Keflavíkur er spáð titlinum að nýju. Hópurinn er ekki ósvipaður þeim og var í fyrra en vissulega stórt skarð höggvið með brotthvarfi Bryndísar Guðmundsdóttur. Falur Harðarson tók við þjálfarastöðu liðsins af Jóni Halldóri Eðvaldssyni og fær það verkefni að innleiða í meistaraflokkinn þá fjölmörgu ungu leikmenn sem valtað hafa yfir yngriflokkakeppnirnar síðustu ár. Birna Valgarðsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir taka að sér leiðtogahlutverkin en fróðlegt verður að sjá hvernig ungu Keflvíkingunum mun ganga að standa í eigin fætur í úrvalsdeild og þá má helst nefna Söru Rún Hinriksdóttur sem er á meðal efnilegustu kvennaleikmönnum þjóðarinnar. Ekki skemmir svo fyrir að Keflavík fékk til liðs við sig Jaleesa Butler sem fór mikinn með Hamarskonum á síðustu leiktíð.
VF-Mynd: Mun Birna Valgarðsdóttir hafa ástæðu til að fagna að móti loknu?