Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar voru útilið á heimavelli
Það virtist fara vel um Keflvíkinga á „útivelli“ í gær.
Mánudagur 17. september 2012 kl. 11:44

Keflvíkingar voru útilið á heimavelli

Keflvíkingar náðu í langþráðan sigur á heimavelli í Pepsi-deild karla í fótbolta gær, en þá unnu þeir stórsigur á liði Fram, 5-0. Glöggir áhorfendur hafa sjálfsagt tekið eftir því að Keflvíkingar hituðu upp á vallarhelmingi Nettóvallarins sem snýr að íþróttahúsinu við Sunnubraut og svo skiptu þeir einnig um varamannaskýli en vanalega sitja varamenn í skýlinu sem er nær Hringbrautinni.

Zoran Ljubicic þjálfari Keflvíkinga viðurkenndi að þarna hafi Keflvíkingar verið að reyna að breyta til en þeim hefur ekki gengið sérlega vel á heimavelli í sumar. „Okkur hefur gengið betur á útivelli í sumar og ákváðum að vera útiliðið í gær,“ sagði Zoran léttur í bragði í samtali við Víkurfréttir. „Það var ákveðin sálfræði í þessu og maður getur svo sem sagt ýmislegt eftir á, þar sem þetta virðist hafa heppnast.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Zoran hrósaði engu að síður leikmönnum sínum enda vinnast leikirnir ekki í varamannaskýlunum. „Þeir lögðu sig alla fram og sýndu þetta Keflavíkurhjarta í gær, þannig unnum við leikinn.“ þjálfarinn viðurkenndi að honum hafi verið létt enda var þetta sannkallaður sex stiga leikur.

„Þarna voru að mætast lið sem voru að berjast fyrir lífi sínu og það var allt undir. Nú förum við aðeins rólegri í næsta verkefni en þar mætum við öðru liði sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni,“ en þar á Zoran við lið Selfoss en sá leikur fer fram á fimmtudag. Zoran segir að Keflavíkurliðið geti með með góðu móti komist upp töfluna í lok móts en það sé algerlega undir leikmönnum komið, möguleikinn sé sannarlega til staðar.

Keflvíkingar eiga þrjá leiki eftir, gegn Selfossi á útivelli, Breiðablik heima og loks KR á útivelli. Sem stendur eru Keflvíkingar í 7. sæti með 27 stig en liðið í 2. sæti er með 31 stig. Það getur því ýmislegt gerst á lokasprettinum í þessari jöfnu deild.

Upphitun hjá Keflvíkingum í gær á „hinu“ markinu.

Keflvíkingar eru fjær á myndinni hér að ofan.