Byko
Byko

Íþróttir

Fimmtudagur 14. janúar 1999 kl. 18:49

KEFLVÍKINGAR VIÐ STJÓRNVÖLIN

Þegar það stoltið var lagt að veði sýndu Keflvíkingar fram á hverjir ráða málum í körfuboltanum, innanbæjar sem og á landsvísu. Jólalykt var af leik bestu liða landsins en einnig úrslitakeppnisbragur, í sínum hvorum hálfleiknum. Njarðvíkingar léku stórvel í fyrri hálfleik bæði í sókn sem vörn og virtust oft hreinlega fleiri en Keflvíkingar á vellinum, hjálparvörn þeirra markviss og tókst þeim oftar en ekki að stela slökum sendingum heimamanna og skila niður hraðaupphlaupskörfum sem skilaði þeim ,,öruggri” forystu í hálfleik 35-54. Í upphafi seinni hálfleiks var aðeins eitt lið á vellinum, Keflvíkingar, sem skoruðu 20 stig í röð og komust yfir 55-54. Leikurinn var eftir þessa flugeldasýningu í jafnvægi en Keflvíkingar miklu ákveðnari og tilfinningin alltaf sú að sigurinn yrði þeirra. Á lokamínútunum hrundi leikur Njarðvíkinga eins og spilaborg og Keflvíkingar fögnuðu sigri 89-80. Mikið var um falleg tilþrif í sókn og vörn hjá báðum liðum en í sínum hvorum hálfleiknum. Friðrik Stefáns, Teitur, Brenton og Hermann voru bestir Njarðvíkinga, í þessari röð og spilaði Friðrik þarna án efa sinn besta leik í Njarðvíkurbúningnum. Erfiðara er að gera upp á milli heimamanna en segja má að þeir Gunnar, Hjörtur og Birgir hafi tendrað neistann og þeir Guðjón, Falur og Damon hlúð að loganum þar til áhorfendastæði Keflvíkinga stóðu í björtu báli. ,,Liðið gerði einfaldlega ekkert af því sem lagt var upp með fyrir leikinn og staðan orðin mjög slæm í hálfleik en leikmenn mínir sýndi gríðarsterkan karakter í seinni hálfleik og sneru leiknum gjörsamlega við” sagði Sigurður þjálfi að leik loknum. Ekki verður séð að nokkurt lið ógni Keflvíkingum fyrst þeim tókst að snúa tapaðri stöðu í sigur gegn því liði sem margir telja einu raunhæfu hindrunina að þeim titlum sem eftir eru í boði á tímabilinu. Liðið lék ákafan og harðan varnarleik í seinni hálfleik, vörn sem hinir 5 landsliðsmenn Njarðvíkinga fundu engin svör gegn ásamt því að skora oftsinnis af harðfylgi úr vægast sagt afar erfiðum færum, sérstaklega Guðjón og Birgir.
Bílakjarninn
Bílakjarninn
Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25