Keflvíkingar unnu botnliðið
Keflvíkingar unnu botnlið Intersport-deildarinnar, KFÍ, með 106 stigum gegn 81 í Sláturhúsinu í kvöld.
Ekki var að sjá af leiknum að þar tæki topplið deildarinnar, Íslands- og bikarmeistararnir á móti botnliðinu sem hafði unnið einn leik það sem af er vetri. Keflvíkingar voru alls ekki með á nótunum allan fyrri hálfleik og stóðu gestirnir í þeim og rúmlega það.
Josh Helm fór á kostum ásamt þeim Pétri Sigurðssyni og Baldri Jónassyni það sem þeir fengu að fara sínu fram fyrir utan 3ja stiga línuna án þess að leikmenn Keflavíkur gerðu neitt í málunum. Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta, 25-25, og svo ótrúlega vildi til að Ísfirðingar voru yfir í hálfleik, 43-46.
Þá hefur Sigurður Ingimundarson væntanlega messað allhressilega yfir sínum mönnum því þeir fóru loks að leika eins og þeir áttu að sér í seinni hálfleik. Keflvíkingar fóru að leggja harðar að sér í vörninni og sigu fljótlega framúr gestunum sem máttu sín lítils.
Undir lok 3. leikhluta var staðan 74-58, en Gunnar Stefánsson skaut frá miðju um leið og flautið gall og smellhitti í körfuna. Ein glæsilegasta karfa sem lengi hefur sést í Keflavík.
Í síðasta leikhluta var aldrei spurning hvernig leikurinn endaði og fengu nokkrir „minni spámenn“ að spreyta sig og sýndu góða takta. Halldór Halldórsson átti sérlega góða innkomu og skoraði 14 stig og tók 8 fráköst, en Sævar Sævarsson, Gunnar Stefánsson og Jón Gauti Jónsson áttu einnig fínar rispur.
„Við mættum bara ekki til leiks fyrr en í seinni hálfleik.“ sagði Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur eftir leikinn. „Menn voru bara ekki mótiveraðir fyrir þennan leik, en við náðum að sýna okkar rétta andlit í seinni hálfleik.“
VF-myndir/Þorgils Jónsson