Keflvíkingar unnu á Ísafirði
Keflvíkingar unnu sigur á KFÍ á Ísafirði í kvöld, 80-89. Þeir hófu leikinn vel en misstu dampinn í seinni hálfleik.
Keflvíkingar mættu sterkir til leiks og héldu aftur af heimamönnum í fyrsta leikhluta. Staðan fyrir annan leikhluta var 11-24 og í hálfleik var munurinn orðinn 23 stig, 29-52.
Í seinni hálfleik var sem Keflvíkingar náðu sér aldrei í gang og var Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari þeirra, ekki sáttur. „Leikurinn var eiginlega búinn í hálfleik og við vorum bara lélegir í seinni hálfleik. Það gekk ekki að halda einbeitingunni og við vorum að missa of marga bolta og taka of mörg léleg skot.“
Ísfirðingar unnu síðasta leikhlutann 33-16, en það nægði ekki til að vinna upp öruggt forskot Keflvíkinganna. Magnús Þór Gunnarsson átti góðan leik í kvöld og skoraði 22 stig, þar af 5 þriggja stiga körfur. Kanarnir, þeir Glover og Matthews, komu næstir honum með 16 stig hvor en náðu ekki að hemja Joshua Helm sem skoraði 37 stig og tók 13 fráköst.
Meistararnir hafa ekki verið mjög sannfærandi það sem af er vetri, en Matthews virðist þó vera að komast betur inn í spilið hjá þeim. Það er ekki seinna vænna því að fyrsti leikur liðsins í Evrópukeppninni er ekki langt undan.